Benda á Samgöngustofu sem bendir á Portúgal og Grikkland

Flugvél af gerðinni Cessna Citation situr enn óhreyfð á Egilsstaðaflugvelli.
Flugvél af gerðinni Cessna Citation situr enn óhreyfð á Egilsstaðaflugvelli. Samsett mynd

Flugvél af gerðinni Cessna Citation sem kyrrsett var á Egilsstaðaflugvelli fyrir um mánuði situr enn óhreyfð. Lögregla bíður eftir því hvort Samgöngustofa muni taka afstöðu til þess hvort heimildarlaust flug vélarinnar frá Höfn til Egilsstaða verði kært. Samgöngustofa segir hins vegar aðkomu sína að málinu takmarkaða og bendir á portúgölsk og grísk flugmálayfirvöld. 

Benda til Portúgal og Grikklands

Flugmaður vélarinnar vildi í mars fljúga frá Höfn í Hornafirði til Bretlands og þaðan til Spánar. Ekki fékkst til þess heimild frá Samgöngustofu sökum þess að flugvöllurinn á Höfn er ekki millilandaflugvöllur. Því fór flugmaðurinn til Egilsstaða þar sem dekk sprakk í lendingu. Við skoðun Samgöngustofu kom í ljós að vélin var ekki með lofthæfisskírteini. 

Þórhildur Elín Elínarsdóttir, upplýsingafulltrúi Samgöngustofu, segir að eftir að í ljós kom að vélin væri í portúgalskri eigu hafi þarlend flugmálayfirvöld farið með málið varðandi skráningu á henni. 

Ennfremur að grísk stjórnvöld, sem gefur út flugskírteini flugmannsins sem flaug heimildarlaust frá Höfn til Egilsstaða í mars, muni taka ákvörðun um það hvort flugmaðurinn verði kærður vegna flugs á vél sem ekki var með gilt lofthæfi. 

Þórhildur Elín Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu
Þórhildur Elín Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Aðkoma Samgöngustofu var einungis svokölluð hlaðskoðun sem er alþjóðlegt kerfi um skoðanir á erlendum flugvélum. Þessi hlaðskoðun fór fram því við fengum ábendinu um að þessi flugvél hafi verið úti í allan vetur. Eftirlitsmenn kyrrsettu hana svo því hún var ekki með gilt lofthæfi,“ segir Þórhildur Elín.  

Benda á Samgöngustofu 

Á sama tíma er það skilningur lögregluyfirvalda á Egilsstöðum að það sé Samgöngustofu að ákvarða hvort hið heimildarlausa flug sem flogið var í mars verði kært.

Kristján Ólafur Guðnason.
Kristján Ólafur Guðnason.

„Lögregla veitti Samgöngustofu aðstoð við rannsókn er snéri meðal annars að lofthæfi vélarinnar. Það mál er nú til skoðunar hjá Samgöngustofu sem tekur ákvörðun um framhald þess, m.a. um formlega kæru til lögreglu. Lögregla mun ekki aðhafast frekar að svo stöddu,“ segir í skriflegu svari frá Kristjáni Ólafi Guðnasyni, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Austurlandi.

Nýlega gerð eigendaskipti 

Málið þótti upphaflega óvenjulegt fyrir þær sakir að Samgöngustofa hafði ekki upplýsingar um það hver eigandi vélarinnar væri. Einungis varð vart við vélina þegar hún flaug frá Höfn til Egilsstaða. 

Þegar vélin lenti á Egilsstöðum, sprakk dekk í lendingu. Eftirlitsmenn frá Samgöngustofu voru sendir á svæðið og vélin kyrrsett í framhaldinu þar sem hún var ekki með lofthæfi.

Fljótlega kom í ljós að vélin var í portúgalskri eigu og höfðu nýlega verið gerð á henni eigendaskipti. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að vélin hafði upphaflega lent á Egilsstöðum í ágúst sl. Þaðan var henni flogið til Hafnar þar sem hún dvaldi í vetur áður en hún fór til Egilsstaða að nýju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert