Bíður eftir gögnum áður en hún tekur ákvörðun

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra gat lítið tjáð sig á Alþingi í dag um það hvenær svar kæmi við leyfisbeiðni Hvals hf., sem hefur sótt um leyfi til að veiða hval og hrefnu til næstu ára.

Kveðst hún enn vera bíð eftir ákveðnum gögnum áður en hún getur tekið afstöðu til beiðninnar. Undir lok janúar lagði Hvalur hf. fram beiðni sína en lítið hefur bólað á svörum frá matvælaráðuneytinu.

Bæði Björn Leví Gunnarsson og Bergþór Ólason spurðu Bjarkeyju um málið í óundirbúnum fyrirspurnatíma í þinginu.

„Ég get ekki nákvæmlega sagt til um það hvenær vænta má niðurstöðu en við erum að reyna að hraða þessari afgreiðslu,“ sagði Bjarkey í svari við fyrirspurn Björns Leví og bætti því við að beðið væri eftir gögnum.

Ekkert í lögum segir til um málsmeðferðartíma

Bergþór spurði Bjarkeyju hvaða tímaramma hún væri að vinna eftir í ljósi þess að skammur tími er til stefnu þar til verktíð ætti að byrja, ef leyfi gefst. Venjulega myndu veiðar hefjast í júní, að sögn Bergþórs. 

„Það er nú þannig að það er ekkert svo sem í lögum sem segir til um málsmeðferðartíma, það er að segja í lögum um hvalveiðar. En auðvitað er það góð stjórnsýsla eins og háttvirtur þingmaður bendir hér á, að draga hlutina ekki það lengi að það sé orðið óþægilega nálægt veiðitímabilinu - þannig að fyrirsjáanleikinn sé að einhverju leyti til staðar,“ sagði Bjarkey og bætti við:

„Ég hef bara sagt það að ég er að bíða hér eftir ákveðnum gögnum sem ég þarf að fá í hendurnar áður en ég get klárað að taka ákvörðun um þessi mál. Þar stendur málið akkúrat núna og ég mun auðvitað hraða afgreiðslunni eins og ég mögulega get,“ sagði Bjarkey.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert