Bilun í miðlægum hugbúnaði hefur valdið vandræðum í starfsemi Háskóla Íslands síðustu klukkustundir. Vandræði hafa verið í tölvukerfi skólans og vefsíða hans liggur niðri.
„Þetta er bilun í miðlægum hugbúnaði en er ekki netárás. Það er alveg búið að útiloka það. Þetta er bara vélabilun hjá okkur innanhúss,“ segir Guðmundur Kjærnested, sviðsstjóri upplýsingatæknisviðs Háskóla Íslands, við mbl.is en skemmst er að minnast þegar gerð var netárás á Háskólann í Reykjavík og Háskólann á Akureyri fyrr á þessu ári.
„Tölvukerfin eru flest hver uppi en úthlutun á IP tölum er óvirk þannig að notendur á útstöðvum eru að missa samband og þá liggur vefsíðan niðri,“ segir Guðmundur.
Guðmundur telur að hægt verði að kippa þessu í liðinn síðar í dag en bilunin átti sér stað á tíunda tímanum í morgun.