Ungur karlmaður var í vikunni dæmdur í eins árs skilorðsbundið fangelsi fyrir sérstaklega hættulega árás með sveðju, hníf og úðavopni að öðrum manni. Jafnframt var honum gert að greiða fórnarlambinu 700 þúsund krónur í bætur.
Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur kemur fram að maðurinn hafi í apríl árið 2021 ráðist vopnaður sveðju að hinum manninum og slegið og skorið hann með sveðjunni í höfuðið og aftanverðan hálsinn.
Sá sem fyrir árásinni varð náði hins vegar sveðjunni af árásarmanninum, en árásarmaðurinn tók þá upp úðavopnið og ógnaði hinum með því og hníf.
Hlaut sá sem fyrir árásinni varð skurð á höfði sem náði niður að höfuðkúpu og annan skurð á aftanverðum hálsi sem náði inn í vöðvalag.
Árásarmaðurinn játaði brot sín skýlaust, en hann hefur áður hlotið þriggja mánaða dóm sem var skilorðsbundinn í tvö ár. Hins vegar var þetta brot núna framið fyrir uppkvaðningu þess dóms og er honum því gerður hegningarauki.
Tekið er fram að árásin hafi verið fólskuleg og litið er til grófleika hennar og afleiðinga. Hins vegar er ungur hans metinn til mildunar refsingar og að þrjú ár séu liðin frá árásinni vegna dráttar sem varð á málinu.
Telur dómurinn því eins árs skilorðsbundinn dóm hæfilegan. Farið var fram á tvær milljónir í bætur, en dómurinn taldi 700 þúsund krónur hæfilegar bætur. Þá var árásarmanninum einnig gert að greiða um hálfa milljón í sakarkostnað.