„Það er náttúrulega alveg galið að skilaboðin núna eru þau að þú getur keyrt mann viljandi niður, stungið af frá vettvangi og allt er bara í góðu – það hefur engar afleiðingar,“ segir Margeir Ingólfsson, einnig þekktur sem DJ Margeir, í samtali við mbl.is.
„Ég myndi segja að þetta sé pínu áfellisdómur yfir rannsóknarlögreglunni.“
Þann 4. júní 2022 keyrði ökumaður bifreiðar á Margeir á Laugaveginum, þar sem Margeir var á hjóli. Að sögn Margeirs og vitna ók maðurinn viljandi á Margeir en lét ekki þar við sitja heldur tók sig til og ók yfir hjól hans og flúði vettvang niður göngugötu á bifreiðinni.
Í dag eru tæp tvö ár liðin frá atvikinu en ekkert hafði spurst af rannsókn málsins þar til Margeir sendi tölvupóst til lögreglu og afrit á blaðamann mbl.is í febrúar á þessu ári.
„Ég ítrekaði að ég vildi halda kærunni til streitu því það má náttúrulega ekki skapast fordæmi fyrir því að maður megi aka yfir gangandi eða hjólandi vegfarendur án afleiðinga.“
Þá var honum greint frá því að málið hefði verið áframsent á ákærusvið lögreglu án frekari útskýringa. Hafa Margeiri ekki borist frekari svör þrátt fyrir að hann hafi sent ítrekun. Á meðan hefur sá brotlegi verið frjáls ferða sinna þrátt fyrir að atvikið hafi náðst á upptöku og að mörg vitni séu skráð hjá lögreglu.
Að sögn Margeirs er bandarískur ferðamaður þeirra á meðal, sem hafi blöskrað svo mikið að hann sendi Margeiri og lögreglu mjög ítarlega atvikalýsingu og gaf upp vegabréfsnúmerið sitt til að hægt væri að kalla hann inn sem vitni.
Hann kveðst þó ekki vita til þess að nein vitni hafi verið kölluð til skýrslutöku.
Eins og málin standi nú hafi það eitt að áframsenda málið til ákærusviðs lögreglu tekið nær tvö ár og því engin leið að vita hversu langan tíma næstu skref taki. Á meðan gangi maðurinn laus og sé, eftir því sem Margeir best veit, enn með ökuréttindi.
Maðurinn hafi einungis verið beittur viðurlögum af hálfu tryggingafélags síns, sem hafi sagt samningi hans lausum í kjölfar árásarinnar enda hafi félagið þurft að greiða fyrir hjól Margeirs.
Hann kveðst undrandi yfir vinnubrögðum lögreglu og talar um vægast sagt furðulega skýrslutöku í kjölfar atviksins.
„Hann var mjög málglaður rannsóknarlögreglumaðurinn sem tók á móti mér á sínum tíma,“ segir Margeir.
Lögregluþjónninn hafi gefið honum ýmsar upplýsingar um árásarmanninn og sagt hann vera góðkunningja lögreglunnar og sagði þá eflaust bara ná honum næst þegar hann fremdi annað „lítilvægt brot“ og gaf þar með í skyn að ekki væri um alvarlegt atvik að ræða í tilfelli Margeirs.
Næst beindust ummæli lögregluþjónsins að Margeiri en hann virtist ekki gefa mikið fyrir fólk á borð við hann.
„Ert þú svona hjólagaur, ertu þá alltaf í spandex-fötum?“ á lögregluþjónninn að hafa spurt. Þegar Margeir hafi svarað neitandi og sagst aðallega nota hjólið til að komast frá A til B hafi fullyrðingar lögreglumannsins þó einungis færst í aukana.
„Bíddu og áttu heima í 101 – ert þú þá svona latte-lepjandi hjólagaur?“ hefur Margeir eftir lögreglumanninum og skellir upp úr.
Hann segir því augljóst að lögreglumaðurinn hafi borið einhvers konar fordóma í hans garð en ekki síst í garð meints árásarmanns sem er af erlendum uppruna. Segir Margeir lögregluþjóninn hafa verið óhræddan við að fullyrða um glæpahneigð fólks af þeim uppruna hér á landi.
Margeir kveðst spyrja sig hvað þessar aðdróttanir að hans persónu hafi átt að þýða, en fyrst og fremst þyki honum upplýsingagjöf lögreglu um manninn, ásamt aðgerðaleysi í rannsókn málsins, furðulegast af öllu.
„Ég er ekkert að sækjast eftir neinu meira en að við berum meiri virðingu fyrir hvert öðru í umferðinni. Svo kannski ætti þetta líka að vera hvatning til að bæta innviði hjólastíga í borginni. Ég er ekki að sækjast eftir neinu öðru nema ákveðnu réttlæti.“
Kveðst Margeir hafa fullan skilning á því að málið sé eflaust ekki efst í bunkanum hjá lögreglu enda mörg önnur áríðandi máli á borði hjá henni. Það að málinu vindi ekkert áfram tveimur árum síðar sé aftur á móti til merkis um brotið kerfi sem hafi sýnt sig á fleiri vegu í þessu ferli.
Til að mynda hafi honum verið ráðlagt að sækja um áverkavottorð á heilsugæslu í kjölfar slyssins. Er hann hafi haft samband í júní hafi honum aftur á móti verið gefinn valkostur um að fá tíma hjá lækni í september eða símatíma, sem á endanum hafi leitt til þess að hann leitaði á læknavaktina og greiddi aukalega fyrir.
„Það er víða pottur brotinn í þessu kerfi.“