Hjón sluppu með skrekkinn

Frá vettvangi á Ölfusárbrú í dag.
Frá vettvangi á Ölfusárbrú í dag. Mynd/Guðmundur Pálsson

Litlu mátti muna að hjónin Gísli Skúlason og Elísabet Valtýsdóttir hefðu orðið fyrir bíl þegar árekstur varð á Ölfusárbrú á tólfta tímanum í dag.

„Við vorum hjólandi á gangbrautinni og vorum rétt komin á brúarendann norðanmegin þegar annar bílinn fór utan í handriðið á brúnni. Við hefðum ekki mátt vera nokkrum sekúndum seinna á ferð en sem betur fer vorum við ekki í neinni hættu,“ segir Gísli í samtali við mbl.is.

Öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda er gagnrýnt á síðunni Íbúar á Selfossi á Facebook en þar segir Guðmundur Pétursson til að mynda: „Það er eins gott að enginn var labbandi þarna þegar þetta gerðist.“

„Handriðið heldur þegar bílarnir fara meðfram því en í þessu tilviki virðist annar bíllinn hafa farið þversum eftir áreksturinn og lent utan í handriðinu,“ segir Gísli.

Gísli segir að brúin sé mjög þröng og tveir stórir bílar geti varla mæst á brúnni. Ef það gerist þá séu bílarnir alveg upp við þá sem eru á gangbrautinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert