Katrín Jakobsdóttir forsetaframbjóðandi og fyrrverandi forsætisráðherra situr fyrir svörum í næsta þætti af Spursmálum undir stjórn Stefáns Einars Stefánssonar.
Þátturinn verður sýndur í beinu streymi hér á mbl.is næstkomandi föstudag kl. 14.
Ákvörðun Katrínar um að gefa kost á sér til embættis forseta Íslands hefur valdið talsverðu fjaðrafoki í samfélaginu undanfarið og ekki síst í hinu pólitíska umhverfi.
Í ávarpi sínu til framboðsins sagði Katrín mikilvægt að þjóðarhöfðingjar á borð við forseta skilji gangverk stjórnmála og samfélags og séu færir um að gæta hagsmuna þjóðar sinnar á alþjóðavettvangi. Taldi hún áratugalanga reynslu sína í stjórnmálum geta nýst vel í embætti forseta. Því hafi hún látið undan þrýstingi og ákveðið að bjóða sig fram.
Þrátt fyrir að mikið hafi farið fyrir framboði Katrínar síðustu daga og hún notið stuðnings víðs vegar úr samfélaginu þykir mörgum spurningum ósvarað varðandi hennar pólitíska feril. Hvort tveggja í fortíð og framtíð og hver hugsjón hennar til forsetaembættisins er.
Í spilaranum hér að neðan má heyra og sjá þátt Spursmála í síðustu viku. Þátturinn er öllum aðgengilegur hér á mbl.is, Spotify og Youtube.