Óboðleg stjórnsýsla

Nýi körfubíllinn var keyptur og afhentur áður en kaupin voru …
Nýi körfubíllinn var keyptur og afhentur áður en kaupin voru tekin fyrir í sveitastjórn. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Sveitarfélagið Norðurþing festi nýverið kaup á og fékk afhentan nýjan körfubíl en ekki eru allir á eitt sáttir um kaupin sem afgreidd voru áður en þau komu inn á borð sveitarstjórnar. Óskuðu fulltrúar Vinstri-grænna í sveitarstjórn, Aldey Traustadóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir, eftir sérstakri umræðu um kaupin á sveitarstjórnarfundi í síðustu viku.

Kaupin voru samþykkt í byggðarráði í 29. febrúar en þar var meirihlutinn klofinn í ákvörðun sinni og greiddi fulltrúi Sjálfstæðisflokks, Hafrún Olgeirsdóttir, atkvæði gegn kaupunum. Þá fékk Aldey bókað að ekki væri gert ráð fyrir kaupum á körfubíl í fjárhagsáætlun fyrir árið 2024. Eðlilegast væri að seinka þeim til ársins 2025 og gera ráð fyrir þeim í fjárhagsáætlun þess árs.

Þegar keyptur og afhentur

„Umræddur körfubíll hefur þegar verið keyptur og afhentur í slökkvistöðina á Húsavík, áður en málið hefur komið fyrir sveitarstjórnarfund og þar með án samþykktar sveitarstjórnar og utan fjárhagsáætlunar. Um er að ræða stjórnsýslu sem er óboðleg og gengur gegn samþykktum Norðurþings,“ létu Aldey og Ingibjörg bóka á fundi sveitarstjórnar.

Hjálmar Bogi Hafliðason forseti sveitarstjórnar tók til varna, en hann, ásamt Áka Haukssyni fulltrúa Miðflokksins, samþykkti kaupin í byggðaráði. Hjálmar sagði kaupin mikla lyftistöng fyrir slökkviliðið og auka björgunargetu.

„Ég ætla hins vegar að taka það á mig og ég er sammála því sem kemur fram í bókun Vinstri-grænna. Þetta er ekki góð stjórnsýsla. Það er alveg rétt. En það fer ekkert alltaf saman í þessu tilfelli þetta tilboð sem okkur barst, sem mér fannst skynsamlegt að ganga að, og síðan þunglamaleg stjórnsýsla sveitarfélagsins,“ segir Hjálmar.

Snýst ekki um slökkviliðið

Aldey tók til máls á fundinum á eftir Hjálmari og ítrekaði að ekki væri um að ræða gagnrýni á slökkviliðið.

„Þetta snýst um stjórnsýsluna í þessu máli. Það lá ekki svona á. Það er ekkert sem segir að við hefðum ekki getað fengið tilboð í körfubíl síðar. Ekki neitt. Við berum ábyrgð og þurfum að vanda okkur. Ég spyr bara: er þetta ákvörðun fyrir tvo aðila að taka, af níu. Er það sanngjarnt? Er það stjórnsýsla sem við viljum vinna með? Mín skoðun er nei, alls ekki,“ segir Aldey. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert