„Ríkisstjórninni ekki lengur treystandi“

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, í ræðustól á Alþingi nú …
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, í ræðustól á Alþingi nú seinni partinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umræða stendur nú yfir á Alþingi um tillögu til þingsályktunar um vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýja kosningar en það eru Flokkur fólksins og Píratar sem leggja fram vantrauststillöguna.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, steig fyrst í pontu Alþingis í umræðunni klukkan 17 en þar mælti hún fyrir þingsályktunartillögu um vantraust á ríkisstjórnina þar sem Alþingi ályktar að lýsa vantrausti á ríkisstjórnina og lýsi þeim vilja sínum að þing verði rofið fyrir 26. júní og efnt verði til almennra alþingiskosninga þann 7. september.

„Við ræðum sem sagt ekki einungis um vantraust hér í dag heldur um kröfu um þingrof og kosningar. Tillagan er lögð fram fyrir hönd allra þeirra sem gefist hafa upp á ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Við erum að færa ríkisstjórninni skýr skilaboð þjóðarinnar um að henni sé ekki lengur treystandi,“ sagði Inga meðal annars í ræðu sinni.

Til hvers að sóa tíma okkar í svona mál

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sagði í upphafi ræðu sinnar að allir þeir sem taka sæti á Alþingi eiga það sammerkt að fyllast stolti af því að fá að taka þátt í löggjafasamkomunni.

„En svo koma stundir þar sem manni finnst okkur vera að mistakast og ég spyr mig hér, þegar borið er upp vantraust á ríkisstjórnina, til hvers erum við að sóa tíma okkar í svona mál?,“ sagði Bjarni.

Hann sagði að það væri betra að efna til almennrar umræðu um stjórnmálaástandið heldur en að fá sérstakar umræður um það hvert ríkisstjórnin vilji stefna í stórum stefnumálum hennar.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert