Tilnefningar til Maístjörnunnar, ljóðabókaverðlauna Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og Rithöfundasambands Íslands, voru kunngjörðar í Gunnarshúsi fyrir stundu, en verðlaunin verða veitt í Þjóðarbókhlöðunni í 8. sinn 15. maí. Tilnefndar bækur eru (í stafrófsröð höfunda):
Tilnefndar bækur eru allar til sýnis í anddyri Þjóðarbókhlöðunnar frá og með deginum í dag. Gjaldgengar voru allar útgefnar íslenskar ljóðabækur ársins 2023, alls 83, sem skilað var til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og fékk dómnefnd þær til umfjöllunar. Dómnefnd skipa Guðrún Eva Mínervudóttir fyrir hönd Rithöfundasambandsins og Jakub Stachowiak fyrir hönd Landsbókasafnsins. Maístjarnan er einu verðlaun á Íslandi sem veitt eru eingöngu fyrir útgefna íslenska ljóðabók. Verðlaununum er ætlað að vekja sérstaka athygli á blómlegri ljóðabókaútgáfu á Íslandi.
Umsagnir dómnefndar um tilnefndu bækurnar ársins hljóða svo:
Áður en ég breytist
Áður en ég breytist er háskalegt og fyndið ævintýri; þjóðsagnakenndur galdur. Höfundur leikur sér með tungumálið á óvæntan og áreynslulausan máta, reynir glettnislega og grafalvarlega á þanþol orðanna og kannar hversu langt er hægt að ganga áður en merkingin leysist upp. Þetta er skáldskapur sem við skynjum með innsæinu frekar en að skilja með rökréttum hætti. Veruleikinn opnast með nýjum hætti í ljóðum Elíasar.
Dulstirni & Meðan glerið sefur
Ljóðin í ljóðatvennu Gyrðis Elíassonar, Dulstirni og Meðan glerið sefur, eru hljóðlát og hlédræg en um leið sérlega ásækin og áhrifamikil. Yrkisefnin koma víða að; draumur og veruleiki tvinnast saman á látlausan hátt og eins náttúran og hið mannlega, gleði og sorg, húmor og depurð, sveit og borg, himinn og mold. Myndmálið er skýrt, tært og heillandi líkt og stöðuvatn á björtum sumardegi og í þessum tærleika býr margt sem er satt, fagurt og mikilvægt.
Vandamál vina minna
Í bókinni Vandamál vina minna býður Harpa Rún upp á eftirtektarverð frásagnabrot – leiftur úr veruleika fólks – skáldskap sem tengist landsbyggðinni og náttúrunni á mjög nútímalegan og áreynslulausan hátt. Bók þessi er velviljaður gluggagægir. Hún einkennist af húmor og mildi auk þess að fagna hinu lágstemmda, hversdagslega og erfiða í heimi manna og skepna. Ljóðin eru hughreystandi án þess að loka augunum fyrir grimmd og sorg hversdagslífsins.
Flagsól
Flagsól er forvitnilegt samspil ljóðs og fræðslu, máls og mynda. Höfundarnir gefa okkur keiminn af skógarbotninum – skógarbað heima í stofu. Höfundar, segjum við, því við tókum verkinu sem einni heild, enda eru myndirnar ljóðrænar og ljóðin myndræn. Verkið í heild sinni er sérlega vandað og ekki sjálfgefið að fá slíkan grip í hendur. Með því að ljá sveppum rödd er verkið gott dæmi um það hlutverk ljóðsins að grípa eitthvað sem enginn tekur eftir og hefja til vegs og virðingar, bera upp í ljósið.
Til hamingju með að vera mannleg
Ljóðsagan Til hamingju með að vera mannleg nálgast með sönnum, fögrum og nístandi hætti hlutskipti ungrar móður sem horfist í augu við dauðann. Bókin fer með lesandann fram á brúnina og aftur til baka og tekst með undraverðum hætti að vera alger síðuflettir. Hjarta og sál lesandans vaxa um nokkur númer gegnum hráa reynslu sem höfundur miðlar á beittan, sláandi, persónulegan og fágaðan máta. Það að höfundur er dansari eykur á meðvitund verksins um þolmörk og seiglu líkamans.
Í myrkrinu fór ég til Maríu
Í myrkrinu fór ég til Maríu er ort til minningar um látna dóttur og geymir blátt áfram en um leið djúp og ægifögur ljóð. Hún fjallar um sorgina sem margbrotið og breytilegt ástand og spyr spurninga sem er ekki hægt að svara nema með strengjatónlist beint úr hjartanu. Í ljóðum sínum kemur Sonja B. Jónsdóttir orðum að hinu ósegjanlega. Hún gerir upp þá átakanlegustu reynslu sem lífið býður upp á, af svo mikilli stillingu og svo miklum skírleika að undrum sætir. Berskjöldunin, æðruleysið og tilfinningaleg nektin í ljóðunum vefur minningunni heiðursklæði.