Úti og inni arkitektar í samstarfi við Landform landslagsarkitekta og ONNO þrívíddarvinnslu fengu fyrstu verðlaun í samkeppni um nýjan samþættan leik- og grunnskóla, frístundaheimili og félagsmiðstöð auk nýrrar göngu- og hjólabrúar í Fleyvangi.
Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að í umsögn dómnefndar um vinningstillöguna Skólabrú segir að þar sé „djörf og fersk tillaga sem byggir á sterkri skipulagslegri sýn“. Mannvirkjunum er ætlað að þjóna nýrri Vogabyggð en gert er ráð fyrir allt að 1.500 íbúðum á svæðinu.
„Með þessu verður til miðja í Vogabyggð sem glæðir hverfið lífi enda eru skólarnir hjörtun í hverfum borgarinnar. Tillagan er afar spennandi og býr til heildstæða umgjörð fyrir skóla- og frístundastarf í mikilli nálægð við einstaka náttúru á svæðinu,“ segir Einar Þorsteinsson borgarstjóri sem tilkynnti úrslitin í þjónustuveri Reykjavíkurborgar í Borgartúni síðdegis í dag.
Sýning á verðlaunatillögunum stendur yfir í þjónustuverinu til 3. maí en á Fleyvangi verður einnig nýtt útivistarsvæði og almenningsrými borgarbúa og var útfærsla svæðisins hluti samkeppninnar. Brúin sem tengja á skólabygginguna við Vogabyggð verður aðal samgönguæð til og frá skóla og mikilvægt kennileiti í borgarlandinu.