Þakklát að fá Jón Jónsson í stjórnina

Ný stjórn UN Women á Íslandi með sjálfan Jón Jónsson …
Ný stjórn UN Women á Íslandi með sjálfan Jón Jónsson í broddi fylkingar.

Tónlistarmaðurinn Jón Jónsson tók sæti í stjórn UN Women á Íslandi á aðalfundi samtakanna í dag. Tók hann sæti Ólafs Stephensen sem gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.

„Það er mikill heiður að fá að taka þátt í stjórn svona sterkra samtaka og ég sem faðir, eiginmaður, sonur og bróðir er spenntur fyrir því að láta gott af mér leiða í jafnréttismálum kvenna og stúlkna um allan heim,“ er haft eftir Jóni Ragnari í tilkynningu frá UN Women. 

Innkomu hans er fagnað í tilkynningunni. „UN Women á Íslandi eru þakklát fyrir að Jón Ragnar hafi verið tilbúinn að koma í okkar raðir. Sem fyrirmynd, einarður stuðningsmaður jafnréttismála, og með þekkingu og reynslu í fjármálum sjáum við fyrir okkur að geta nýtt krafta hans vítt og breitt í okkar starfi. Við hlökkum mikið til samstarfsins og horfum fram á ótrúlega spennandi tíma í okkar starfi,“ segir Anna Steinsen, formaður stjórnar UN Women á Íslandi. 

Mánaðarlegir styrktaraðilar skiluðu sínu

Á aðalfundinum kom fram að framlag UN Women á Íslandi til alþjóðlegra verkefna UN Women fyrir árið 2023 nam tæplega 149 milljónum króna. „Framlögin gerðu UN Women kleift að styðja við verkefni sem voru hvað mest aðkallandi á árinu í gegnum kjarnasjóð UN Women. Þetta er áttunda árið í röð sem UN Women á Íslandi sendir hæsta fjárframlag allra landsnefnda UN Women í kjarnasjóð UN Women, óháð höfðatölu. Landsnefndin er jafnframt stærsti framlagsaðili í kjarnasjóð UN Women á eftir aðildarríkjunum sjálfum. Mánaðarlegir styrktaraðilar UN Women á Íslandi, Ljósberar, voru sem fyrr hjarta og hryggjarstykki íslensku landsnefndarinnar. Langstærsti hluti framlaga UN Women á Íslandi til verkefna UN Women á heimsvísu kom frá Ljósberum, eða um 80%,“ segir í tilkynningu. 

Tekjur lækkuðu milli ára

Í ársskýrslu UN Women á Íslandi kemur fram að tekjur samtakanna lækkuðu um rúm 5% milli ára og námu tæplega 281 milljónum árið 2023.

„Helsta ástæðan fyrir lækkun á tekjum er að árið 2022 komu inn gríðarlegir fjármunir í formi stakra styrkja vegna stríðsins í Úkraínu sem ekki endurtóku sig árið 2023. Framlög Ljósbera, mánaðarlegra styrktaraðila samtakanna, voru líkt og síðastliðin ár helsta fjáröflunarleið samtakanna en framlag þeirra lækkaði einnig á milli ára um tæpar 3,5 milljónir og námu í heildina rúmum 194 m.kr.

Ástæðu lækkunar á tekjum frá Ljósberum má rekja fyrst og fremst til skorts á fjármunum og slæms gengis í sumargötukynningum, en þegar fjármagn fékkst frá höfuðstöðvum var of langt liðið á árið til þess að sá árangur skili sér en hann mun skila sér á árinu 2024. Annað söfnunarfé frá einstaklingum og fyrirtækjum og sala á varningi nam 32.677.757 kr. og lækkaði nánast um helming en sá munur skýrist fyrst og fremst af stöku styrkjunum vegna Úkraínu en hins vegar jókst vörusala um rúma milljón milli ára.

Rekstrartekjur til fjáröflunar og kynningarmála sem og aðrir styrkir námu rúmum 52 m.kr, þar af komu 18 milljónir frá utanríkisráðuneytinu annars vegar vegna nýs rammasamnings og hins vegar í formi kynningarstyrks, 1,5 milljónir komu frá forsætisráðuneytinu tengt verkefni um jákvæða karlmennsku, en stærsti hlutinn kom frá höfuðstöðvum UN Women sem fjárfesting í fjáröflun samtakanna,” segir í ársskýrslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert