Þolinmæði Grindvíkinga á þrotum

Grindvíkingar eru langþreyttir á Þórkötlu.
Grindvíkingar eru langþreyttir á Þórkötlu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mætum á Austurvöll: Styðjum Grindvíkinga!“ er yfirskrift viðburðar sem Grindvíkingurinn Sverrir Árnason hefur stofnað á Facebook og boðar á Austurvelli á morgun, fimmtudag, milli klukkan 17 og 19.

„Mótmælum vinnubrögðum Fasteignafélagsins Þórkötlu sem heldur Grindvíkingum í spennutreyju vegna uppkaupa húseigna. Ekkert ætlar að standast af því sem FÞ hefur gefið út!“ segir í inngangi að kynningartexta viðburðarins og er ekki örgrannt um að mikilla og háværra vonbrigða gæti hjá íbúum þjakaðs sveitarfélags í garð fasteignafélagsins svo sem komið hefur fram í viðtölum hér á mbl.is.

Margir að missa af eignum

„Engar fréttir af framvindu frá félaginu í þessari viku þegar allt átti að vera komið á fullt.
Margir eru búnir að vera í erfiðri skuldastöðu og lifa frá degi til dags. Þá eru margir eru að missa af eignum vegna þess að dagsetningar í kauptilboðum eru fyrndar og lenda í því að tilboðum er rift og söluverð eigna er hækkað. Enn fleiri munu lenda í þessu ef ekki er settur fullur kraftur í þetta, það þýðir meiri mannskapur og sólarhringsvaktir!“ segir svo í kynningu Sverris.

Hvetur hann að lokum alla þá sem hagsmuna hafa að gæta eða vilja standa með Grindvíkingum til að láta sjá sig á Austurvelli á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert