Samkomulag náðist ekki meðal þingflokksformanna um fyrirkomulag umræðna um vantrauststillögu á hendur ríkisstjórnarinnar. Því gætu umræður staðið yfir fram á nótt.
Þetta segir Birgir Ármannson, forseti Alþingis, í samtali við mbl.is.
Klukkan 17 í dag verður tillaga til þingsályktunar um vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar tekin fyrir. Eru það Flokkur fólksins og Píratar sem leggja fram þá tillögu.
Strangt tiltekið eru engin takmörk á því hversu oft þingmenn mega fara upp í pontu Alþingis og flytja ræðu í þessu tilviki, að sögn Birgis. Þegar umræðum lýkur er í kjölfarið kosið um tillöguna.
Fyrst eiga þeir rétt á 15 mínútna ræðu og svo eftir það geta þeir flutt ræðu í fimm mínútur í senn, eins oft og þeir vilja.
„Þingmenn geta farið í ansi margar stuttar ræður ef þeir vilja þannig þetta getur dregist vel fram eftir kvöldi og jafnvel fram á nótt, ef þannig stendur á.“
Birgir segir að einn flokkur hafi ekki verið til í að semja um fyrirkomulag umræðna, sem er þó hefðin.
Nefnir Birgir að þegar vantrauststillaga var tekin fyrir síðustu tvö skiptin þá hafi verið samkomulag á milli þingflokksformanna um að umræður myndu ekki standa yfir í meira en tvo klukkutíma.
„Venjulega hefur verið um þetta samið en það var einn þingflokkur mjög skýr með það að vilja ekki samkomulag. Forsenda fyrir því að það sé hægt að víkja frá reglum þingskapanna í svona tilvikum er að það sé samkomulag allra,“ segir Birgir.