Cyrus fékk grænt ljós en Boom hafnað í hvelli

Boom hlaut ekki náð fyrir mannanafnanefnd.
Boom hlaut ekki náð fyrir mannanafnanefnd. Ljósmynd/Colourbox

Hvað eiga nöfnin Cyrus, Kriss og Dímítrí sameiginlegt? Jú, þau hafa hlotið náð fyrir mannanafnanefnd, sem hefur birt nýja úrskurði. Eiginnöfnin Bergman, Boom og Óðr var aftur á móti hafnað. 

Eftirfarandi nöfn hafa verið samþykkt:

  • Cyrus sem eiginnafn. Skal nafnið fært á mannanafnaskrá sem ritháttarafbrigði nafnsins Sýrus.
  • Kriss sem eiginnafn, og skal fært á mannanafnaskrá yfir kynhlutlaus nöfn
  • Sæ sem millinafn.
  • Jórvík sem millinafn. 
  • Dímítrí sem eiginnafn.
  • Althea sem eiginnafn. 
  • Bjartdís sem eiginnafn.
  • Herkúles sem eiginnafn
  • Óður sem eiginnafn
  • Þá var fallist á föðurkenninguna Konráðsdóttir. 

Eftirfarandi nöfnum var svo hafnað:

  • Bergman, bæði sem eiginnafn og millinafn.
  • Óðr sem eiginnafn. 
  • Boom sem eiginnafn og millinafn. 

Í úrskurði nefndarinnar um beiðni um eiginnafnið Bergman er m.a. bent á að það brjóti í bága við íslenskt málkerfi. Líta verði á nafnmyndina Bergman sem afbökun rótgróins ritháttar nafnsins, þ.e. Bergmann, sem er bæði eiginnafn og ættarnafn. Varðandi millinafnið Bergman segir að ættarnöfn sé almennt ekki hægt að samþykkja sem millinöfn. 

Varðandi nafnið Boom segir að millinafnið Boom sé ekki dregið af íslenskum orðstofni og uppfyllir þegar af þeirri ástæðu ekki skilyrði 6. gr. laga um mannanöfn. Hvað varðar beiðni um eiginnafnið Boom segir, að ekki sé hefð fyrir þessum rithætti og beiðninni því hafnað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert