Aðalfundur Blaðamannafélags Íslands var haldinn á þriðjudaginn þar sem kynnt var úttekt KPMG á fjármálum félagsins á árunum 2014-2023. Niðurstaða endurskoðunarfyrirtækisins leiðir í ljós að það telur að víða hafi verið pottur brotinn þegar kemur að innra eftirliti með fjármálunum.
Meðal annars kom fram á fundinum að Hjálmar Jónsson, fyrrverandi formaður og framkvæmdastjóri BÍ, hefði alls millifært inn á sjálfan sig 28 sinnum og nefnt það fyrirframgreidd laun.
Millifærslurnar voru sagðar hafa verið um níu milljónir króna í heild á sjö ára tímabili og upphæð þeirra á bilinu 100 þúsund krónur til 1,5 milljónir króna.
Millifærslurnar endurgreiddi hann svo í öll skiptin, án vaxta, en mest liðu sjö mánuðir þar til hann greiddi til baka. Hvorki fyrirframgreiddu launin né endurgreiðslur komu fram á launaseðli að sögn endurskoðunarfyrirtækisins.
Eins kom fram í úttektinni sem kynnt var á fundinum að Hjálmar hefði keypt tíu tölvur og átta síma á tíu ára tímabili án þess að fengist hefði fyrir því samþykki.
Hjálmar var sagður hafa einn haft aðgang að því að samþykkja reikninga og greiða þá. Enginn hafði því aðgengi að bókhaldi utan hans og bókara félagsins.
Að sögn Sigríðar Daggar Auðunsdóttur, formanns BÍ, verður stjórn félagsins falið að vinna málið áfram, ræða niðurstöðuna og velja réttu viðbrögðin við því sem þar kom í ljós.
„Enginn var til að tryggja að eftirlit væri nægjanlegt þannig að ekki væri verið að stofna til útgjalda eða greiðslur væru inntar af hendi án þess að sannarlega lægi fyrir samþykki stjórnar fyrir þeim. Bæði á þetta við greiðslur úr félaginu sjálfu sem og ólíkum sjóðum þess,“ segir Sigríður Dögg.
Leikur grunur á því að fjárdráttur hafi átt sér stað?
„Við erum ekki komin svo langt að við treystum okkur að meta nákvæmlega hvað þessar niðurstöður þýða. Nýrrar stjórnar bíður að rýna í niðurstöður og taka ákvörðun um næstu skref,“ segir Sigríður Dögg.
Fyrrverandi formaður og framkvæmdastjóri félagsins sagði á fundi í fyrradag að hann hefði ekki fengið tækifæri til að svara fyrir það sem hér hefur þótt hafa misfarist. Hvers vegna var það svo?
„Við fórum að ráðleggingum KPMG. Það var ekki verið að saka hann [Hjálmar] um neitt. Þessi skoðun snérist um færslur í bókhaldi sem gerðar voru athugasemdir við og tillögur að úrbótum í bókhaldi,“ segir Sigríður Dögg.
„Því þurftu þær engar skýringar. Þetta snýst um færslur sem endurskoðandi metur sem svo að verklag hafi þurft að vera með öðrum hætti.“
Í úttektinni er Hjálmar sagður hafa samþykkt greiðslur upp á tæpar 8 milljónir úr sjóðum félagsins til félagsmanna án þess að það hafi verið borið undir stjórn sjóðanna ef miðað er við fundargerðir. Auk þess sem hann er sagður hafa samþykkt greiðslur til tengdra aðila upp á um 1,6 milljónir króna. Þá hafi hann notið aukalegs akstursstyrks umfram það sem launakjör greindu á um frá árinu 2018-2023. Nemur sú upphæð 3,2 milljónum króna.
Hjálmar var framkvæmdastjóri og formaður félagsins frá 2010-2021 en lét af störfum árið 2021 sem formaður. Honum var svo sagt upp störfum sem framkvæmdastjóra fyrirvaralaust í janúar síðastliðnum.
„Það var allt með eðlilegum hætti,“ segir Hjálmar spurður um málið.
„Ég var ekki einn um það að fá laun fyrirfram í einangruðum tilfellum. Það er ekkert óeðlilegt við slíka fyrirgreiðslu atvinnurekanda gagnvart starfsmönnum og tíðkast í íslensku samfélagi. Ég var ekkert undanskilin því frekar en aðrir,“ segir Hjálmar.
Hefði slíkt ekki átt að koma fram á launaseðli?
„Það skiptir engu máli. Það stemmdi allt og ég sé ekki hvaða máli það skiptir. Félagið skaðaðist ekki af þessu á einn eða neinn hátt,“ segir Hjálmar.
Talað er um að styrkveitingar hafi ekki farið fyrir stjórn félagsins. Er það rétt?
„Þetta er fullkomin þvæla. Það voru starfsreglur sem giltu um styrki félagsins og það var allt saman uppi á borðum og ekkert við þetta að athuga. En það verður að skoða að ég hef ekki séð þessa skýrslu. Ég fékk símtal 36 mínútum áður en aðalfundurinn hófst. Ég hef bara séð það sem kemur fram á aðalfundi eins og aðrir þátttakendur á honum. En ég fullyrði það að öll millifærslublöð eru til og það var allt gert með eðlilegum hætti. Auðvitað er hægt að setja einhverja hluti í undarlegt samhengi þegar einhver samtala er skoðuð tíu ár aftur í tímann,“ segir Hjálmar.
Hann segir að farið hafi verið yfir alla hluti í stjórn félagsins og einstökum sjóðum þess. Millifærslur til félagsmanna vegna styrkveitinga yfir tíu ára tímabil skipti þúsundum og því sé þarna um ótrúlegan sparðatíning að ræða.
„Allir þessir hlutir höfðu starfreglur sem farið var eftir. Allir hlutir voru endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda. Allar stjórnir hafa rætt um málið. Allir hlutir voru bornir upp á aðalfundi og stjórnir skrifuðu undir reikninga félagsins og aldrei voru settar fram athugasemdir,“ segir Hjálmar.
Sagt er að styrkir sem eru hátt í 8 milljónir kr. sem greiddir voru til félagsmanna hafi ekki verið bornir undir stjórn félagsins. Hvað finnst þér um slíkan málflutning?
„Þetta er bara rangt. Ég veit ekkert í hvað er verið að vísa,“ segir Hjálmar.
Olli þessi úttekt þér hugarangri áður en hún kom út?
„Nei ég er með góða samvisku og veit að allt er í eins góðu lagi og hægt er. Það eru eðlilegar skýringar á öllum þessum hlutum,“ segir Hjálmar.
Blaðamaður er félagi í Blaðamannafélagi Íslands