Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir segir embættið hafa vakið athygli lækna sérstaklega á því að kíghósti hafi greinst hér á landi nýlega.
Hún segir í samtali við Morgunblaðið að einkenni kíghósta séu með þeim hætti að læknar þurfi sérstaklega að hugsa til öndunarfærasýkingarinnar til þess að átta sig á því að prófa fyrir henni.
„Í dag er kíghósti ekki inni í almennum „öndunarfærapanel“ en rætt er um að breyta því.“
Tvö staðfest smit tengdra einstaklinga greindust á höfuðborgarsvæðinu í fyrstu viku aprílmánaðar. Guðrún segir uppi grun um fleiri smit en ekkert sé staðfest í þeim efnum. Ekki sé talið að smitin megi rekja til ferðalaga milli landa.
Kíghósti berst með úðasmiti, til dæmis í gegnum hnerra eða hósta, líkt og aðrar öndunarfærasýkingar. Guðrún segir að oft geti liðið nokkur tími þar til einkenni koma fram eða allt að tvær vikur en þau geti verið viðvarandi í nokkrar vikur og allt upp í tvo mánuði.
Ung börn eru viðkvæm fyrir einkennum kíghósta að sögn sóttvarnalæknis.
„Þessi hósti getur verið mjög slæmur og getur valdið öndunarstoppi, sérstaklega í litlum börnum þar sem öndunarvegurinn er þröngur. Börn geta líka fengið slæma lungnabólgu og einkennin geta haft áhrif á heilann.“ Þannig segir Guðrún aðaláhersluna vera á að verja yngstu börnin.
Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.