Hafa samþykkt kaup á 126 eignum Grindvíkinga

Frá Grindavík.
Frá Grindavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eigendur 711 fasteigna hafa sótt um að Þórkatla kaupi íbúðir þeirra eða íbúðarhús í Grindavík. Stjórn Þórkötlu hóf afgreiðslu umsókna í lok síðustu viku og hefur nú þegar samþykkt kaup á 126 eignum fyrir alls um 9,2 milljarða króna.

Frágangur og afgreiðsla einstakra viðskipta mun taka mislangan tíma en stefnt er að því að samþykkja um 150 umsóknir til viðbótar í næstu viku, að því er segir í tilkynningu frá Þórkötlu.

Þá segir, að vonast sé til að kaupin muni ganga hraðar fyrir sig eftir því sem reynsla kemst á ferlið. Þegar hafi verið gengið frá kaupsamningum við 11 umsækjendur en 115 umsækjendur fái í dag tilkynningu um að umsókn þeirra hafi verið samþykkt í stjórn Þórkötlu.

„Frágangur er að hefjast vegna kaupsamninga við þennan hóp og ætti greiðsla sem nemur 95% af kaupverði að berast seljendum innan fimm virkra daga frá undirritun og þinglýsingu kaupsamnings. Nokkrir umsækjendur hafa þegar fengið kaupsamningsgreiðsluna millifærða á reikninga sína,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert