Fjöldi ferðamanna sem gistir á hótelum og gistiheimilum í Skaftafellssýslum getur orðið allt að 40% hærri en fjöldi íbúa á svæðinu. Er þá ótalinn sá fjöldi ferðamanna sem gistir í heimagistingu, í ferðavögnum eða tjöldum, eða ekur um svæðið en gistir ekki.
Innviðir sem tengjast öryggi íbúa og ferðamanna á svæðinu eru mjög þandir og álag á viðbragðsaðila gríðarlegt.
Stofna á samráðshóp hagsmunaaðila í Skaftafellssýslum sem á að beita sér fyrir tafarlausum aðgerðum af hálfu stjórnvalda.
Þetta kom fram á málþingi um öryggisinnviði í Skaftafellssýslu sem sveitarfélögin Mýrdalshreppur, Skaftárhreppur og Hornafjörður efndu til á miðvikudag.
Í tilkynningu um málþingið segir að helstu hagsmunaaðilar hafi tekið samtal um stöðuna á þinginu og rætt mögulegar lausnir. Ekki sé þó til einföld lausn á þessari áskorun en verkefnið krefjist sameiginlegrar sýnar og átaks allra hagaðila, ekki síst stjórnvalda.
Útgefin gistileyfi í Skaftafellssýslu eru yfir 5.600 talsins á meðan íbúafjöldi nemur 4.200.
„Í dag eru viðmið varðandi heilbrigðisþjónustu og öryggisviðbragð í sveitarfélögum reiknuð miðað við höfðatölu íbúa. Öllum er ljóst að sú aðferð er úrelt og engan veginn til þess fallinn að mæta því álagi sem er í Skaftafellssýslum vegna fjölda ferðamanna,“ segir í tilkynningu sveitarfélaganna þriggja.
Þá kemur fram að líflegar umræður hafi skapast á málþinginu og að samhljómur hafi verið meðal allra hagaðila um brýna þörf á aðgerðum strax.
„Næstu skref verða að stofna samráðshóp hagsmunaaðila í Skaftafellssýslum og mun sá hópur beita sér fyrir tafarlausum aðgerðum af hálfu stjórnvalda þegar kemur að öryggi íbúa og ferðamanna í sveitarfélögunum.“