Kjarnorkuknúni kafbáturinn USS New Hampshire sést um þessar mundir út um stofugluggann hjá sumum Suðurnesjamönnum. Er þetta fjórða þjónustuheimsókn bandarísks kafbáts til landsins.
Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir í samtali við mbl.is að í þessari þjónustuheimsókn sé verið að sækja vistir og einnig verið að skipta um hluta áhafnarinnar.
Landhelgisgæslan hefur sinnt þeirri þjónustu samkvæmt samningi við bandaríska sjóherinn frá því í fyrra.
Varðskipið Þór fylgdi honum í landhelgina og sést einnig ásamt kafbátnum um þessar mundir út af Helguvík. Þegar heimsókninni er lokið mun Þór fylgja kafbátnum út úr landhelginni.
Í færslu inni á facebook-síðunni Garðmenn og Garðurinn birti Margrét Edda Arnardóttir nokkrar myndir af kafbátnum og skrifaði:
„Ekki á hverjum degi sem maður sér kafbát út um gluggann hjá sér.“