Landris í Svartsengi heldur áfram á stöðugum hraða og bendir það til þess að um helmingur kvikunnar, sem kemur af miklu dýpi, safnist fyrir í kvikuhólfinu undir Svartsengi. Hinn helmingurinn flæði upp á yfirborðið í Sundhnúkagígaröðinni.
Þetta er mat sérfræðinga Veðurstofu Íslands.
Eldgosið við Sundhnúkagígaröðina er stöðugt og gýs úr einum gíg. Hraunbreiðan heldur áfram að byggjast upp nærri gígunum en hraun rennur einnig í lokuðum rásum um 1 km í suðaustur og eru virk svæði í hraunbreiðunni til móts við Hagafell.
Myndmælingateymi Náttúrufræðistofnunar og Landmælinga Íslands flugu yfir gosstöðvarnar á mánudag og sýna niðurstöður mælinga að flatarmál hraunbreiðunnar að á mánudag hafi flatarmál hraunbreiðunnar verið 6,15 ferkílómetrar að stærð og rúmmál þess 33,2 ± 0,8 milljón m3.
Meðalhraunflæði frá gígnum yfir tímabilið 8. til 15. apríl var metið 3,2 ± 0,2 m3/s. Það er lítil breyting m.v. meðalhraunflæði tímabilið frá 3. til 8. apríl sem var metið 3,6 ± 0,7 m3/s.