Ákvörðun fjármálaráðherra að taka húsnæði viðbragðsaðila út af fjármálaáætlun til ársins 2029 þýðir í raun að búið sé að slá verkefnið af. Ákvörðunin er gríðarleg vonbrigði fyrir viðbragðsaðila og þrátt fyrir þetta verður nauðsynlegt fyrir almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og fleiri einingar að finna nýtt leiguhúsnæði vegna myglu og þess hversu þröngt er um starfsemina.
Þetta segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, en hann telur að þessi ákvörðun muni til lengri tíma kosta ríkið umtalsverða fjármuni sem hefði verið hægt að spara.
Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, tekur undir með Víði að þetta séu vonbrigði og að þetta þýði að slökkviliðið þurfi að búa við núverandi aðstæður lengur en áformað var og að ef ákveðið verði að endingu að fara í uppbyggingu á húsnæði sem þessu verði það ekki fyrr en vel inn á næsta áratug sem hægt yrði að flytja inn.
Fyrr í vikunni kynnt Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, fjármálaáætlun fyrir árin 2025-2029, en þar eru boðaðar umfangsmiklar hagræðingaraðgerðir. Meðal annars er búið að slá út af borðinu á þessu tímabili að reisa nýtt húsnæði viðbragðsaðila sem áformað var á Kleppsreitnum. Hins vegar verður haldið áfram framkvæmdum við nýjan Landspítala, Þjóðarhöll og byggingar nýs fangelsis í stað Litla-Hrauns.
„Í fyrsta lagi eru þetta gríðarleg vonbrigði. Við erum búin að vinna þetta verkefni gríðarlega vel og búið að leggja mikla vinnu í greiningar og frumhönnun og margar stofnanir komið að því að undirbúa þetta,“ segir Víðir í samtali við mbl.is.
Víðir segir að mikið bakslag hafi komið á síðasta ári þegar fjármálaáætlun fyrir 2024-2028 var birt og í ljós kom að fresta átti framkvæmdunum. Nýjasta áætlunin hafi í raun slegið þau áform alveg út af borðinu. „Það er ekki gert ráð fyrir neinu í þessari fjármálaáætlun og þar af leiðandi er það okkar mat að það sé nánast bara búið að slá þetta af. Og þó að menn tali um frestun þá erum við að tala um að það séu minnst tíu ár þangað til þetta getur orðið að raunveruleika og við getum ekki beðið svo lengi með aðstöðuna. Hún er orðin of lítil og þröng, fyrir utan að það kom upp mygla í þessu húsnæði sem vaktstöðvarnar okkar eru í.“
Nú verður að sögn Víðis farið í annað verkefni sem miðar að því að koma þessum stjórnstöðvum og vaktstöðvum saman í viðunandi húsnæði. „Við erum byrjuð á þeirri vinnu, en þetta eru vonbrigði,“ segir hann.
Um er að ræða stjórnstöð Landhelgisgæslunnar, fjarskiptamiðstöð lögreglunnar, stjórnstöð almannavarna og símsvörun Neyðarlínunnar. Segir hann að þar starfi í dag nokkrir tugir starfsmanna og langleiðina í hundrað, sem sinni sólarhringsvöktum, auk þess sem fjölgað verður á skrifstofu almannavarna úr 15 í 20 á þessu ári. Um 3.000 fermetra þurfi fyrir þá starfsemi.
Víðir segir að með nýbyggingunni hafi verkefnið verið nálgast með nokkuð annarri hugsun í ríkisrekstri en hafi verið áður. Byggja hafi átt utan um verkefnin, en ekki utan um stakar stofnanir. Útskýrir hann það þannig að í húsi viðbragðsaðila hafi verið gert ráð fyrir öllu embætti ríkislögreglustjóra, þar á meðal almannavörnum, lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Landhelgisgæslunni, Neyðarlínunni, slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, hluta af starfsemi tollsins og svo skrifstofum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.
Hugsunin með nýja húsnæðinu var að sögn Víðis að samþætta starfsemi þeirra og samnýta meðal annars móttöku og símsvörun, geymslur, fundarherbergi og sameiginlega aðstöðu og jafnvel samnýta eftir atvikum stoðþjónustu eins og skjalavinnslu. Samtals átti húsið að verða um 26 þúsund fermetra að hans sögn.
Vísar Víðir til þess að Ríkiseignir: Framkvæmdasýslan hafi metið það svo að bara það að hafa þessar stofnanir á sama stað gæti sparað hinu opinbera hundruð milljóna á ári. Þá er ótalið að sögn Víðis að nýja húsnæðið myndi í raun auka vinnurými og bæta aðstöðu, þrátt fyrir að stefnt hafi verið að sambærilegum fjölda fermetra fyrir nýja húsnæðið og sameiginlegan fjölda fermetra í öllum því húsnæði sem stofnanirnar eru nú með. „Af þessari bættu nýtingu ríkisfjármuna verður ekki,“ segir hann og bætir við: „Þetta eru fyrst og fremst vonbrigði, bæði faglega, en líka fjárhagslega.“
Með birtingu nýjustu fjármálaáætlunar segir Víðir að stutt sé að farið verði í umtalsverðar aðhaldsaðgerðir eftir áföll síðustu ára sem hafi kostað samfélagið mikla fjármuni. Hann segist skilja að ráðast þurfi í hagræðingu og forgangsröðun, en að fyrir viðbragðsaðila séu þetta vonbrigði.
„Við sjáum líka að búið er að taka ákvörðun um mjög fjárfrekar framkvæmdir sem eru nauðsynlegar, eins og uppbyggingu Landspítala, kennsluaðstöðu fyrir heilbrigðisvísindin og fleira sem eru mjög fjárfrekar aðgerðir. Meðan þær framkvæmdir eru í gangi gerist auðvitað lítið í því að vinna með hús sem er af þeirri stærðargráðu og kostnaði sem þetta hús var.
Menn eru bara búnir að forgangsraða í þessa áttina og maður skilur það alveg. Það þarf að taka ákvarðanir og þær eru ekki alltaf auðveldar, en það breytir ekki að við sem vinnum við þennan geira að þetta eru vonbrigði,“ segir Víðir.
Spurður út í áhrif af þessari ákvörðun á slökkviliðið segir Jón Viðar slökkviliðsstjóri að í fyrsta lagi yrði flutt inn í nýtt húsnæði eftir um áratug, að því gefnu að verkefnið komist aftur á dagskrá. „Væntingar allra stóðu að því að hægt væri að flytja inn fyrr því þetta er mikilvægt fyrir viðbragðsaðila,“ segir hann.
Slökkviliðið hefur verið með nokkuð umfangsmiklar breytingar á uppsetningu slökkvistöðva í kortunum undanfarin ár og áratugi sem hófst með byggingu nýrrar stöðvar í Hafnarfirði og svo í Mosfellsbæ. Næstu skref eru svo uppbygging í Tónahvarfi í Kópavogi, en með þessu er verið að horfa til þess að stytta útkallstíma umtalsvert, en útkallstíminn var talsvert lengri t.d. í efri byggðum höfuðborgarsvæðisins.
Næstu skref voru svo að flytja úr Skógarhlíðinni í nýtt húsnæði viðbragðsaðila á Kleppsreitnum, en til viðbótar hafði einnig verið gefið vilyrði fyrir minni stöð á lóð á BSÍ-reitnum, samhliða annarri uppbyggingu þar. Tengt þessu áformaði slökkviliðið að flytja úr núverandi stöð á Tunguhálsi.
Jón Viðar segir að fjármálaáætlunin breyti engu með uppbyggingu Tónahvarfs, en að það gæti haft áhrif á flutning af Tunguhálsi og sannarlega hefur það áhrif á aðalstöðina sem áfram verður í Skógarhlíð. Hann segir að skoða þurfi með framtíðarmál eftir þessa ákvörðun, en það hafi ekki enn verið gert.