„Mótmæla þessu Þórkötlu kjaftæði“

Nanna Grettisdóttir á mótmælafundi Grindvíkinga á Austurvelli nú síðdegis.
Nanna Grettisdóttir á mótmælafundi Grindvíkinga á Austurvelli nú síðdegis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hópur Grindvíkinga er saman komin á Austurvelli til að mótmæla stöðu mála í bæjarfélaginu og vinnubrögðum Fasteignafélagsins Þórkötlu.

„Ég er fyrir utan Alþingishúsið með skilti í höndunum,“ sagði Nanna Grettisdóttir, íbúi Grindavíkur, í samtali við mbl.is. Hún segir að það séu ekki margir Grindvíkingar á Austurvelli en hluti hópsins hefur gert sér ferð inn í Alþingishúsið.

Grindvíkingar fyrir utan Alþingishúsið í dag.
Grindvíkingar fyrir utan Alþingishúsið í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Spurð hverju hún sé að mótmæla segir Nanna:

„Við erum helst að mótmæla þessu Þórkötlu kjaftæði eða „þjófkötlu“ eins og margir segja. Þetta fyrirtæki hefur verið að mismuna einstaklingum, er endalaust að draga það að veita fólki svör, koma endalaust með nýjar reglur og það fær enginn neitt nema þeir sem eiga skuldlausar eignir,“ segir Nanna.

Sjálf segist hún vera í þeirri stöðu að eiga hús í Grindavík sem hún greiðir af  tryggingar ásamt hita og rafmagni.

Grindvíkingar eru ekki sáttir við vinnubrögð Fasteignafélagsins Þórkötlu.
Grindvíkingar eru ekki sáttir við vinnubrögð Fasteignafélagsins Þórkötlu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lánið hækkað um hálfa milljón

„Við erum í Þorlákshöfn og erum með kaupsamning á íbúð sem við viljum kaupa en það fer ekki í gegn hjá Þórkötlu. Við fáum ekki borgað,“ segir Nanna og segir að margir séu í svipaðri stöðu og hún.

Nanna segist hafa horft upp á lán sitt hækka um hálfa milljón króna og segist þurfa að greiða 300 þúsund krónur af því á mánuði nema að hún fái venjulega frystingu sem kosti háa fjárhæð.

„Þetta er ömurleg staða sem við erum í. Ég efast um að þessi mótmæli skili einhverju því Þórkatla gerir ekkert fyrir okkur. Maður getur samt haldið í vonina og annars væri ég ekki hér.“

Grindvíkingar á þingpöllum í dag.
Grindvíkingar á þingpöllum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert