Um 300 manns mættu á fund í Rokksafni Íslands í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ í kvöld en yfirskrift fundarins var, Verndum Hljómahöllina. Þar var lokun Rokksafnsins mótmælt.
Meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar samþykkti í síðasta mánuði að færa bókasafnið í rými Rokksafnsins í Hljómahöll og þar með er framtíð Rokksafnsins í mikilli óvissu.
Félag tónskálda og textahöfunda (FTT) hefur lýst yfir miklum áhyggjum af fyrirætlan bæjarstjórnar Reykjanesbæjar að leggja niður eða draga úr umfangi Rokksafns Íslands í Hljómahöll til þess eins að koma þar fyrir bókasafni bæjarins.
Samkvæmt úttekt hjá SVÓ-greingu sem gerð var um um flutning safnsins á síðasta ári kom fram að flutningurinn gæti ógnað orðspori bæjarins sem „bítlabæjar.“
Mikil og góð stemning var á fundinum og á honum kom skýrt kall frá fundargestum að hætta við áformin en meðal þeirra sem héldu ræður voru Jakob Frímann Magnússon, Páll Óskar Hjálmtýsson, Ásgeir Elvar Garðarsson, framkvæmdastjóri bílaleigunnar Geysis, og Bragi Valdimar Skúlason, formaður Félags tónskálda og textahöfunda. Þá voru atriði frá tónlistaskólanum og hljómsveitinni Nostalgíu.