Um þessar mundir eru um 225 íslenskir læknanemar í Jessenius-læknaskólanum, en hann er staðsettur í Martin, níundu stærstu borg Slóvakíu. Skólinn, sem er hluti af Comenius-háskólanum í Bratislava, hefur löngum þótt fremsta læknadeild Slóvakíu, og er jafnan talinn með bestu læknaskólum í Mið-Evrópu.
Námið tekur sex ár og hafa 98 Íslendingar nú þegar útskrifast með læknapróf frá skólanum, en auk þess völdu rúmlega 20 að taka fyrri þrjú árin í Slóvakíu og seinni þrjú í Danmörku.
Þau Erika Halasova, prófessor við skólann og ræðismaður Íslands í Martin, og dr. Martin Janik, aðstoðarrektor alþjóðatengsla í háskólanum og prófessor í réttarmeinafræði, voru bæði stödd hér á landi í vikunni, en þau voru meðal annars að kynna námið í Jessenius-skólanum fyrir íslenskum framhaldsskólanemum. Með þeim í för voru dr. Victor Guðmundsson, betur þekktur sem tónlistarmaðurinn Doctor Victor, en hann var einn af fyrstu Íslendingunum til þess að stunda nám við skólann, og Runólfur Oddsson, ræðismaður Slóvakíu á Íslandi.
Halasova segir tildrög þess að Íslendingar fóru að nema við skólann hafa verið þau að Runólfur ákvað fyrir um tólf árum að keyra um Slóvakíu endanna á milli, frá Kosice í austurhluta landsins til höfuðborgarinnar Bratislava í vestri, en Martin er þar nánast mitt á milli. Runólfur áði þar og gaf sig á tal við þáverandi umsjónarmann námsins, dr. Albert Stransky, og í kjölfarið ákvað Runólfur að kynna skólann fyrir nokkrum Íslendingum sem þreyttu inntökuprófið hér á landi og héldu svo utan til náms.
Halasova segir að frá þeim tíma hafi sífellt fjölgað í hópi Íslendinga við skólann, og nú sé svo komið að fleiri Íslendingar en Norðmenn komi þar á hverju ári til þess að nema læknisfræði. Janik bætir við að mikil reynsla sé í Jessenius af því að taka á móti erlendum stúdentum til náms, en byrjað var að kenna á ensku í skólanum árið 1991.
Hann segir að hin síðari ár hafi verið sérstaklega sóst eftir því að fá nemendur frá norðurhluta Evrópu, sem hafi reynst dugmiklir námsmenn og áhugasamir um læknisfræðina. „Þetta er orðið mjög sterkt samfélag nemenda frá þessum löndum í Martin, og við erum mjög stolt af því að þau hafi valið að nema við Jessenius,“ segir Janik.
Halasova segir aðspurð að Íslendingarnir sem stundað hafi nám við skólann hafi jafnan verið í hópi fremstu nemenda og standist þar allan samanburð við nemendur frá mun fjölmennari ríkjum.
Íbúafjöldinn í Martin er um 54.000, en borgin er um 230 kílómetra frá höfuðborginni Bratislava og eru viðmælendur sammála um að bæjarbragurinn sé skemmtilegur í Martin. Victor segir að Martin minni sig einna helst á Akureyri.
„Það er skíðasvæði þarna, sem minnir á Hlíðarfjall, og það eru falleg fjöll og náttúrulegar gönguleiðir allt um kring. Það er stutt að fara allt, hægt að ganga eða hjóla um allan bæinn, og svo er alltaf gott veður í Martin, líkt og á Akureyri,“ segir Victor kíminn.
Dr. Janik segir í þessu samhengi að skólinn sé mjög nemendavænn, þar sem nálægð kennara og nemenda sé mikil í bænum og auðvelt fyrir nemendur að komast til og frá skóla þar sem allar vegalengdir séu stuttar. „Svo erum við kennararnir til staðar, bæði þegar nemendurnir þurfa aðstoð við námið eða við vandamál sem koma upp utan skóla. Það er mjög gott stuðningsnet þarna,“ segir Janik.
Runólfur og Victor bæta við að Martin sé í raun hálfgerður læknabær, og stór hluti þeirra sem þar búi tengist Jessenius-skólanum. Það hjálpi mikið til við að skapa þægilegt andrúmsloft í bænum. Þá er öflugt íþróttalíf þar og hafa t.d. sumir af nemendunum keppt með handboltaliðum bæjarins í neðri deildum Slóvakíu.
Victor segir að eitt af því sem hafi heillað sig við að læra í Slóvakíu hafi verið að hann hafi alltaf langað til að flytja utan og læra nýtt tungumál.
„Það er spennandi að prófa eitthvað nýtt og stíga út fyrir þægindarammann. Skólinn var mjög góður, en svo var þetta líka skóli lífsins, að læra að sjá um sig sjálfur og kynnast sjálfum sér,“ segir Victor, sem hóf einmitt tónlistarferil sinn samhliða náminu í Slóvakíu. Hann bætir við að slóvakíska sé mjög svipuð pólsku, og það hafi nýst honum vel í samskiptum við Pólverja hér á landi.
Talið berst að náminu sjálfu. Janik leggur áherslu á að þó að umgjörðin í Jessenius og í Martin sé eins og best verður á kosið, sé brýnt að hafa í huga að mikilvægasta skrefið í því að læra læknisfræði verði nemandinn sjálfur að stíga.
„Þetta er ekki auðvelt nám. Ef nemendurnir tileinka sér læknisfræðina og er virkilega annt um að gera hana að lífsstarfi sínu, þá erum við hér til að láta drauma þeirra rætast.“
Halasova tekur undir með Janik. „Ef fólk er eljusamt og vill læra til læknis, hví ekki að prófa að nema í Martin? Það gæti breytt lífi þeirra.“
Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag. Leiðrétt hefur verið að 98 hafa útskrifast með læknapróf frá skólanum auk 20 sem luku námi í Danmörku.