Segir Þórkötlu reyna að slá mótmæli niður

Mótmælin eru klukkan 17 í dag á Austurvelli.
Mótmælin eru klukkan 17 í dag á Austurvelli. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sverrir Árnason segir tilkynningu frá Þórkötlu fasteignafélagi ekki breyta neinu um fyrirhuguð mótmæli Grindvíkinga á Austurvelli í dag.

Hann segir að íbúum hafi verið sýnd vanvirðing með litlu sem engu upplýsingaflæði og telur tilkynningu Þórkötlu í dag tilraun til að slá niður viðbrögð íbúa. 

Tilkynning Þórkötlu misvísandi

Fasteignafélagið Þórkatla sendi frá sér tilkynningu fyrr í dag þar sem sagt var frá því að félagið hafi nú þegar samþykkt kaup á 126 eign­um fyr­ir alls um 9,2 millj­arða króna.

Þá segir að þegar hafi verið gengið frá kaup­samn­ing­um við 11 um­sækj­end­ur en 115 um­sækj­end­ur fái í dag til­kynn­ingu um að um­sókn þeirra hafi verið samþykkt í stjórn Þór­kötlu.

Sverrir gagnrýnir þessa framsetningu. Hann segir tilkynninguna ekki lýsandi fyrir stöðuna, að verið sé að gera lítið úr viðbrögðum íbúa og láta eins og þau séu ekki á rökum reist. 

„Það var bara búið að samþykkja 11 kaup þangað til í gær. Svo kemur þessi tilkynning í dag þegar við erum búin að boða mótmæli. Þetta er ekki erfitt reikningsdæmi,“ segir Sverrir spurður hvort boðuð mótmæli hafi haft áhrif á tilkynninguna. 

Hann segir að mótmælin muni fara fram þrátt fyrir fyrirhuguð kaup Þórkötlu. Sérstaklega mikilvægt sé að mæta í dag og sýna að Grindvíkingar vilja ekki láta koma svona fram við sig bætir Sverrir við. 

Skortur á upplýsingum vanvirðing

Sverrir ákvað að boða til mótmælanna í kjölfar þess sem hann segir vanvirðingu af hálfu Þórkötlu fasteignafélags. Hann segir að upplýsingaflæðið frá Þórkötlu hafi verið langt frá því að vera gott og að íbúar fái ekkert að vita um ferlið. 

„Mótmælum vinnubrögðum Fasteignafélagsins Þórkötlu sem heldur Grindvíkingum í spennutreyju vegna uppkaupa húseigna. Ekkert ætlar að standast af því sem FÞ hefur gefið út! Engar fréttir af framvindu frá félaginu í þessari viku þegar allt átti að vera komið á fullt,“ segir í viðburðinum á Facebook.

Hægagangur bitnar á íbúum

Sverrir gagnrýnir að hægagangur hafi verið í öllu ferlinu og það bitni mjög á Grindvíkingum. Stjórn Þórkötlu hóf af­greiðslu um­sókna í lok síðustu viku.

Sverrir segir hálfhlægilegt að búið sé að samþykkja 11 umsóknir nú viku seinna þegar tilkynnt var að unnið yrði í þessu alla helgina. 

Hann segir einnig að nú séu sex vikur séu liðnar síðan íbúar gátu sent inn umsóknir til fasteignafélagsins Þórkötlu um uppkaup íbúða en það átti að afgreiða þær umsóknir á tveimur til fjórum vikum. 

Einnig hafi lélegt upplýsingaflæði verið þegar lög um uppkaup íbúða í Grindavík voru samþykkt í lok febrúar. Þá hafi strax komið inn  tilkynning þess efnis að opnað yrði fyrir umsóknir innan fárra daga. Sú tilkynning hafi þó haldist óbreytt í marga daga og stjórnvöld ekki haft fyrir því að segja að þetta myndi dragast.

„Við fáum ekkert að vita um ferlið. Margir eru búnir að senda inn fyrirspurnir til Þórkötlu og við fáum bara einhver stöðluð svör sem við lesum ekkert út úr. Þannig við erum engu fróðari.

Mér finnst þetta vanvirðing, að upplýsa okkur ekki betur en þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert