„Var jákvæð en er núna reið, fúl og pirruð“

Birna Rún Arnarsdóttir með skiltið í mótmælum Grindvíkinga á Austurvelli …
Birna Rún Arnarsdóttir með skiltið í mótmælum Grindvíkinga á Austurvelli í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Birna Rún Arnarsdóttir, íbúi í Grindavík, var ein af þeim sem mætti á Austurvöll í dag til að mótmæla vinnubrögðum Fasteignafélagsins Þórkötlu.

Til mótmælanna var boðað á Facebook í gær og mættu nokkrir tugir á Austurvöll og hluti þeirra fór á þingpalla.

Birna hélt á skilti sem á stóð, kaupið strax, en íbúar Grindavíkur hafa gagnrýnt fasteignafélagið harðlega fyrir seinagang sem hafi í mörgum tilfellum hafi gert Grindvíkingum erfitt um vik að kaupa sér fasteignir á öðrum stöðum. 

Engin svör að fá og missti af íbúð

„Ég veit að það kom einhver yfirlýsing frá framkvæmdastjóra Þórkötlu í dag en það hefur ekkert heyrst frá þeim í langan tíma. Okkur hafa ekki borist neinar upplýsingar síðan þessi lög um uppkaup á eignum Grindavíkur fóru í gegn í febrúar,“ segir Birna Rún við mbl.is.

Birna segir að það sé ósk Grindvíkinga að fá einhver svör frá Þórkötlu en sjálf segist hún hafa verið búin að finna íbúð og sækja um þann 8. mars að Þórkatla keypti upp þeirra húsnæði.

„Ég fékk þau svör að þetta tæki tvær til fjórar vikur. Ég tjáði fasteignasalanum að ég gæti þar með gengið frá kaupunum eftir í mesta lagi fjórar vikur. Ég lét teikna upp eldhús og fleira en svo gerðist ekkert og ég missti af íbúðinni,“ segir Birna.

Birna segir að þetta sé ekkert einsdæmi og að margir hafi lent í sömu aðstæðum og hún. Hún segir að það hafi kannski verið smá brjálæði að fara strax af stað að leita að húsnæði en þegar fólk sé í þeirri stöðu að eiga ekki heimili þá vilji það finna einhvern stöðugleika og það sé erfitt þegar fólk er í lánsíbúðum.

Birna býr hjá föður sínum í Garðabæ ásamt manni sínum og tveimur af börnum þeirra.

„Við vorum ótrúlega heppin. Pabbi flutti úr íbúðinni sinni og fór upp til systur minnar og við erum í þriggja herberja íbúð.

Var með tíu fyrstu sem sótti um

Haldið þið að þessi mótmæli í dag skili einhverju?

„Nei svo sem ekki. Ég var búin að fá það staðfest hjá Þórkötlu að ég hefði verið með þeim tíu fyrstu sem sótti um og ætti þar að leiðandi að vera með tíu fyrstu að fá þetta í gegn. Þegar maður sér svo í fréttum að 127 samningar séu í höfn og ég ekki á þeim lista þá skilur maður ekki hlutina.“

Hún segir að Þórkatla hafi verið að svara tölvupóstum en að svörin séu öll mjög stöðluð og ekkert í þeim eða svör við þeim spurningum sem spurt er um. 

„Ég er búin að vera mjög jákvæð og hvetjandi í öllu þessu ferli en einhvern veginn í dag þá sagði ég hingað og ekki lengra. Ég get ekki lengur verið jákvæð gagnvart þessu. Nú er ég bara reið, fúl og pirruð,“ segir Birna Rún, sem er kennari í safnskóla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert