Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar, segir aðkomuna í gripahús á Norðurlandi vestra hafa verið mjög slæma.
29 nautgripir fundust þar dauðir vegna vanfóðrunar og hefur umráðamaður þeirra verið kærður fyrir alvarlega vanrækslu. 21 nautgripur var felldur á staðnum og voru álíka margir sendir til slátrunar daginn eftir.
Hrönn kveðst ekki muna eftir öðru eins máli af þessari stærðargráðu. Hún minnist þó þess að mun alvarlegra mál hafi komið upp í febrúar árið 2022 vegna vanrækslu á nautgripa- og sauðfjárbúi.
Að sögn Hrannar átti málið sér skamman aðdraganda en hún gat þó ekki sagt til um hve lengi nautgripirnir hefðu legið dauðir í fjósinu.
Hrönn segir MAST hafa farið í eftirlit ásamt lögreglu í kjölfar ábendingar um slæman aðbúnað sem stofnunin tók mjög alvarlega.
Hrönn segir ástandið hafa blasað við um leið og inn var komið.
Stofnunin hefur einungis heimild til að banna dýrahald tímabundið og var umráðamaður dýranna því kærður til lögreglu, og þess krafist að hann yrði með dómi sviptur heimild til að hafa búfé í umsjá sinni, versla með þau eða sýsla með þau með öðrum hætti.