Almannavarnir auka viðbúnað

Víðir segir viðbúnað hækkaðan vegna kvikusöfnunar undir Svartsengi.
Víðir segir viðbúnað hækkaðan vegna kvikusöfnunar undir Svartsengi. mbl.is/Óttar

„Við höfum hækkað viðbúnaðinn hjá okkur og bætt við mannskap þar sem kvikusöfnun undir Svartsengi er að nálgast þessi neðri mörk sem eru í kringum átta þúsund rúmmetra svo nú gæti eitthvað gerst næstu vikuna,“ segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, við mbl.is um hækkaðan viðbúnað vegna goshættu á Reykjanesskaga.

„Vegna óvissunnar höfum við augun meira á boltanum frá og með deginum í dag og höfum tvöfaldað hjá okkur vaktir, ef eitthvað gerist þá vitum við af reynslunni að fyrirvarinn verður líklega ekki mikill,“ heldur yfirlögregluþjónninn áfram.

Aðspurður segir hann Grindavík og Svartsengi verða rýmd fari virkilega að draga til tíðinda á svæðinu og bendir auk þess á að nú sé svæðið mjög varasamt og vinsamleg tilmæli til fólks séu að það haldi sig fjarri. „Nú er ekki skynsamlegt að fara í gönguferðir þarna, við vitum að einhverjir eru enn þá að fara til að horfa á gosið en það er ekki það skynsamlegasta sem fólk gerir núna,“ segir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert