Anna Lísa Björnsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarmaður ríkisstjórnarinnar. Einnig hefur verið gengið frá endurráðningu Áslaugar Maríu Friðriksdóttur og Dagnýjar Jónsdóttur sem aðstoðarmanna ríkisstjórnarinnar.
Þetta kemur fram í tilkynningu.
„Anna Lísa hefur undanfarin ár gegnt starfi framkvæmdastjóra þingflokks Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og var áður samskipta- og viðburðastjóri VG. Hún stundaði meistaranám á árunum 2004-2006 við National Film & Television School í Bretlandi við framleiðslu kvikmynda. Hún var aðstoðarframleiðandi BBC á Íslandi á árunum 2006-2017 og framleiðandi hjá Sagafilm frá 2005-2006. Anna Lísa er einnig stofnandi Gley mér ei styrktarfélags og Sorgarmiðstöðvarinnar,” segir í tilkynningunni.
„Áslaug María hefur verið aðstoðarmaður ríkisstjórnarinnar frá október 2023. Hún er með MSc-próf í vinnusálfræði frá Háskólanum í Hertfordshire í Bretlandi og BA-próf í sálfræði frá Háskóla Íslands. Áður starfaði hún m.a. sem sjálfstætt starfandi ráðgjafi á sviði stafrænna mála og mannauðsmála, var borgarfulltrúi og varaþingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn auk þess að starfa sem sérfræðingur í félagsmálaráðuneytinu.
Dagný hefur verið aðstoðarmaður ríkisstjórnarinnar frá apríl 2022. Hún er með BA-próf í íslensku frá Háskóla Íslands og hefur m.a. starfað sem sérfræðingur á upplýsinga- og kynningarsviði Kennarasambands Íslands, sem verkefnastjóri á kynningar- og markaðssviði Eimskips og sérfræðingur á markaðssviði Arion banka. Þá var hún þingmaður Framsóknarflokksins 2003-2007,” segir einnig í tilkynningunni.