Færa slökkviliðið til nútímans

Körfubílarnir voru framleiddir af Bronto Skylift í Finnlandi.
Körfubílarnir voru framleiddir af Bronto Skylift í Finnlandi. mbl.is/Arnþór Birkisson

Tveir nýir körfubílar slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu voru formlega afhentir í morgun við skemmtilega athöfn. Slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins segir að nýi tækjakosturinn muni tryggja öryggi íbúa og slökkviliðsmanna enn frekar.

„Þetta hefur gífurlega mikla þýðingu, þetta eru bílar sem koma nýir. Bæði komast þeir hærra upp og tæknin hefur breyst mikið á síðustu 25 árum - bílarnir sem þeir leysa af eru frá 1999 og 2005.

Fyrir utan það þá eru þetta líka mikið öruggari tæki, kraftmeiri og veitir íbúum og okkar starfsmönnum meira öryggi,“ segir Jón Viðar Matth­ías­son, slökkviliðsstjóri á höfuðborg­ar­svæðinu, í samtali við mbl.is.

Aldrei áður náð í jafn mikla hæð

Fulltrúar frá Bronto Skylift í Finnlandi voru viðstaddir afhendinguna, sem fram fór á slökkviliðstöðinni við Skútahraun í Hafnarfirði, en bílarnir eru frá þeim. Karfan á öðrum bílnum getur farið í 32 metra hæð og hin karfan getur farið í 45 metra hæð.

Hafa áður verið körfubílar hér á landi sem ná svona hátt upp?

„Nei, við höfum ekki haft körfubíla sem ná svona hátt upp,“ segir Jón.

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins tók á móti tveimur nýjum körfubílum í morgun.
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins tók á móti tveimur nýjum körfubílum í morgun. mbl.is/Arnþór Birkisson

Útbúnir nýjustu tækni 

Hversu hátt upp þeir ná er þó ekki aðalatriðið að sögn Jóns. Þessir bílar eru útbúnir nýjustu tækni sem skiptir sköpum fyrir störf slökkviliðsmanna.

„Aðalbreyting er að það auðveldara að stýra vatnsflæðinu uppi, þú getur stýrt því niðri og þarft ekki að senda menn upp í körfum þegar þú ert að fara brennandi hús,“ segir hann og útskýrir að vatnsflæðinu yrði stýrt niðri á jörðu.

„Svo eru í báðum þessum bílum myndavélar. Þannig þú getur sent bæði venjulega mynd í stjórnstöðina og svo getur þú breytt myndavélinni þannig að hún sé hitamyndavél.“

Jón Viðar segir að aldrei áður hafi verið í notkun …
Jón Viðar segir að aldrei áður hafi verið í notkun hér á landi körfubílar sem hafa haft körfu sem náð hefur jafn hátt upp. mbl.is/Arnþór Birkisson

Hitamyndavélar eru nauðsynlegar til þess að sjá hvar hitinn er mestur, til dæmis í þaki eða byggingu, og þá geta slökkviliðsmenn einbeitt sér að því að eiga við það svæði.

„Þetta er stórbætt tækni og eiginlega komumst við til nútímans. Hinir bílarnir voru góðir og frábærir þegar þeir komu en þeir eru orðnir gamlir.“

Stefnt á að kaupa annan körfubíl á næstu árum

Hann segir markmið stjórnar slökkviliðsins vera að kaupa annan nýjan körfubíl þegar slökkviliðsstöð við Tónahvarf í Kópavogi opnar eftir 2-3 ár.

„Þá erum við komnir í efri hluta Kópavogs þar sem er töluvert af háhýsum þannig að það er verið að styrkja okkar viðbragðsgetu með nýrri stöð og nýjum búnaði.“

Körfubílarnir eru hlaðnir nýjustu tækni.
Körfubílarnir eru hlaðnir nýjustu tækni. mbl.is/Arnþór Birkisson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka