Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð starfandi forseta Landsréttar um að allur Landsréttur sé vanhæfur í svokölluðu Gnúps-máli vegna starfa eins dómara við Landsrétt fyrir Gnúp fyrir rúmlega 15 árum síðan.
Í dómi Hæstaréttar kemur fram að vanhæfi eins dómara við Landsrétt leiði ekki sjálfkrafa til að aðrir dómarar teljist vanhæfir. Hins vegar væri staðan þannig í þessu máli að dómarar gætu þurft að leggja mat á trúverðugleika framburðar dómarans sem vitnis í málinu. Slíkt tengsl gætu hlutlægt séð verið til þess fallin að efast mætti með réttu um óhlutdrægni dómaranna við það mat.
Segir í dómi Hæstaréttar að þótt ekki sé augljóst í þessu máli að það myndi reyna á að dómarar Landsréttar þyrftu að leggja mat á sönnunargildi og trúverðugleika framburðar meðdómara síns við réttinn, þá væri ekki hægt að útiloka það.
Vísað er til þess að náið samstarf væri á milli allra dómara Landsréttar og að Aðalsteinn hafi starfað í sex ár við Landsrétt og á þeim tíma starfað með öllum dómurum réttarins.
Út frá þessu staðfestir Hæstiréttur ákvörðun Davíð Þórs Björgvinssonar, starfandi forseta Landsréttar, um að allur Landsréttur sé vanhæfur í málinu, enda hafi Landsréttardómarinn Aðalsteinn E. Jónasson, verið eitt af vitnum í málinu fyrir héraði. Væri það til þess fallið að draga mætti óhlutdrægni annarra dómara við Landsrétt með réttu í efa.
Jafnframt gerir Hæstiréttur Þórði og Sólveigu að greiða 400 þúsund krónur til Lyfjablóms í kærumálskostnað, en þau kærðu úrskurð Landsréttar í málinu til Hæstaréttar.
Líkt og mbl.is hefur áður fjallað um er um að ræða einkamál þar sem félagið Lyfjablóm (áður Björn Hallgrímsson ehf.) krefur Þórð Má Jóhannesson og Sólveigu Pétursdóttur, fyrrverandi dómsmálaráðherra sem situr í óskiptu búi eiginmanns síns heitins, Kristins Björnssonar, um samtals 2,3 milljarða. Voru þau Þórður og Sólveig sýknuð í héraði, en málinu áfrýjað til Landsréttar.
Er ástæða vanhæfisins að Landsréttardómarinn Aðalsteinn E. Jónasson, er eitt af vitnum í málinu. Var hann lögfræðingur hjá Gnúpi fjárfestingafélagi hf. árið 2007, en málið snýst um það tímabil. Aðalsteinn var sjálfur ekki dómari í málinu, en aðrir dómarar töldu að sú staða að vega og meta sönnunargildi og trúverðugleika framburðar hans gerðu þá mögulega vanhæfa.
Fengu dómararnir Davíð Þór til að fara yfir mögulegt vanhæfi og kallaði hann til aðila málsins, sem enginn hafði farið fram á vanhæfi dómaranna, til að fá frekari skoðun þeirra á stöðunni.
Í úrskurði Davíð Þórs kom fram að ekki væri útilokað að dómarar Landsréttar „geti staðið frammi fyrir því að vega og meta sönnunargildi og trúverðugleika framburðar samdómara síns Aðalsteins við úrlausn málsins.” Voru réttmætar ástæður taldar liggja til þess að draga í efa óhlutdrægni dómaranna í þessu máli og var þar með þeirri spurningu Davíðs Þórs við fyrirtöku málsins, þar sem hann spurði „hvort vanhæfi Aðalsteins smitist yfir á dómara og dóminn í heild“ svaraði játandi.