Hæstiréttur staðfestir vanhæfi alls Landsréttar

Jón Þór Ólason, lögmaður Lyfjablóms, í forgrunni, en í bakgrunni …
Jón Þór Ólason, lögmaður Lyfjablóms, í forgrunni, en í bakgrunni eru þeir Ragnar Hall og Arnar Már Stefánsson í skikkjum og Gísli Hall, lögmaður og sonur Ragnars á bak við Jón Þór. Er myndin úr aðalmeðferð málsins við héraðsdóm árið 2022. mbl.is/Árni Sæberg

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð starfandi forseta Landsréttar um að allur Landsréttur sé vanhæfur í svokölluðu Gnúps-máli vegna starfa eins dómara við Landsrétt fyrir Gnúp fyrir rúmlega 15 árum síðan.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að vanhæfi eins dómara við Landsrétt leiði ekki sjálfkrafa til að aðrir dómarar teljist vanhæfir. Hins vegar væri staðan þannig í þessu máli að dómarar gætu þurft að leggja mat á trúverðugleika framburðar dómarans sem vitnis í málinu. Slíkt tengsl gætu hlutlægt séð verið til þess fallin að efast mætti með réttu um óhlutdrægni dómaranna við það mat.

Ekki útilokað að leggja þurfi mat á trúverðugleika meðdómara

Segir í dómi Hæstaréttar að þótt ekki sé augljóst í þessu máli að það myndi reyna á að dómarar Landsréttar þyrftu að leggja mat á sönnunargildi og trúverðugleika framburðar meðdómara síns við réttinn, þá væri ekki hægt að útiloka það.

Vísað er til þess að náið samstarf væri á milli allra dómara Landsréttar og að Aðalsteinn hafi starfað í sex ár við Landsrétt og á þeim tíma starfað með öllum dómurum réttarins.

Út frá þessu staðfestir Hæstiréttur ákvörðun Davíð Þórs Björgvinssonar, starfandi forseta Landsréttar, um að allur Landsréttur sé vanhæfur í málinu, enda hafi Landsréttardómarinn Aðalsteinn E. Jónasson, verið eitt af vitnum í málinu fyrir héraði. Væri það til þess fallið að draga mætti óhlutdrægni annarra dómara við Landsrétt með réttu í efa.

Jafnframt gerir Hæstiréttur Þórði og Sólveigu að greiða 400 þúsund krónur til Lyfjablóms í kærumálskostnað, en þau kærðu úrskurð Landsréttar í málinu til Hæstaréttar.

Niðurstaða Hæstaréttar er að allur Landsréttur er vanhæfur í málinu.
Niðurstaða Hæstaréttar er að allur Landsréttur er vanhæfur í málinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tekist á um milljarða

Líkt og mbl.is hefur áður fjallað um er um að ræða einka­mál þar sem fé­lagið Lyfja­blóm (áður Björn Hall­gríms­son ehf.) kref­ur Þórð Má Jó­hann­es­son og Sól­veigu Pét­urs­dótt­ur, fyrr­ver­andi dóms­málaráðherra sem sit­ur í óskiptu búi eig­in­manns síns heit­ins, Krist­ins Björns­son­ar, um sam­tals 2,3 millj­arða. Voru þau Þórður og Sól­veig sýknuð í héraði, en málinu áfrýjað til Landsréttar.

Er ástæða van­hæf­is­ins að Lands­rétt­ar­dóm­ar­inn Aðal­steinn E. Jónas­son, er eitt af vitn­um í mál­inu. Var hann lög­fræðing­ur hjá Gnúpi fjár­fest­inga­fé­lagi hf. árið 2007, en málið snýst um það tíma­bil. Aðal­steinn var sjálf­ur ekki dóm­ari í mál­inu, en aðrir dóm­ar­ar töldu að sú staða að vega og meta sönn­un­ar­gildi og trú­verðug­leika framb­urðar hans gerðu þá mögu­lega van­hæfa.

Fengu dómararnir Davíð Þór til að fara yfir mögu­legt van­hæfi og kallaði hann til aðila máls­ins, sem eng­inn hafði farið fram á van­hæfi dóm­ar­anna, til að fá frek­ari skoðun þeirra á stöðunni.

Réttmætar ástæður til að draga í efa óhlutdrægni

Í úrskurði Davíð Þórs kom fram að ekki væri útilokað að dómarar Landsréttar „geti staðið frammi fyr­ir því að vega og meta sönn­un­ar­gildi og trú­verðug­leika framb­urðar sam­dóm­ara síns Aðal­steins við úr­lausn máls­ins.” Voru réttmætar ástæður taldar liggja til þess að draga í efa óhlutdrægni dómaranna í þessu máli og var þar með þeirri spurningu Davíðs Þórs við fyrirtöku málsins, þar sem hann spurði „hvort van­hæfi Aðal­steins smit­ist yfir á dóm­ara og dóm­inn í heild“ svaraði játandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert