Kíghósti (e. pertussis) er öndunarfærasýking sem er algengust hjá börnum, einkum á fyrstu mánuðum ævinnar, að því er segir á vef Heilsuveru um sjúkdóminn.
Nokkur kíghóstasmit hafa greinst á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu og segir Nanna Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga á höfuðborgarsvæðinu, að sýkingin hafi líklegast verið í dreifingu í einhvern tíma.
„Hjá unglingum og fullorðnum birtist sjúkdómurinn sem langvarandi og þrálátur hósti,“ segir á vef Heilsuveru.
Sýkingin stafar af bakteríunni bordetella pertussis sem framleiðir eiturefni sem getur valdið slæmum hóstaköstum.
Meðal einkenna eru vægt kvef, vaxandi hósti, slímsöfnun og slæm hóstaköst, sérstaklega á næturnar.
„Eftir um það bil tvær vikur færast einkennin í vöxt með áköfum hóstaköstum og fylgir þeim einkennandi soghljóð við innöndun,“ segir á Heilsuveru.
Þá eru síðari einkenni hnerri, nefrennsli og hiti. Sjúklingar geta fundið fyrir einkennum sjúkdómsins í allt að tíu vikur.
Smit berst á milli manna með úða frá öndunarfærum, til dæmis með hnerra. Meðgöngutími sjúkdómsins er venjulega 2-3 vikur.
Fólk sem smitast af kíghósta þarf að forðast umgengni við ungbörn, eins og kostur er. Nota skal skurðstofumaska ef leita þarf til læknis.
Sjúkdómurinn er greindur með ræktun frá nefi.
Bólusetning er áhrifarík leið til þess að koma í veg fyrir kíghósta. Bólusetning gegn sjúkdómnum er hluti af barnabólusetningu.
„Börn eru bólusett ung því sjúkdómurinn er hættulegastur yngstu börnunum. Hér á landi eru börn bólusett við 3, 5 og 12 mánaða aldur og endurbólusett við 4 og 14 ára aldur,“ segir á vef Heilsuveru.
Ungum börnum er sérstaklega hætt við alvarlegum fylgikvillum vegna kíghósta. Meðal þeirra geta verið öndunarstopp, krampar, lungnabólga og truflun á heilastarfsemi.
Börn sex mánaða og yngri fá oftast meðferð á sjúkrahúsi. Sjúkdómurinn er ekki jafn alvarlegur hjá fullorðnum og eldri börnum.
Oftast þarf ekki sérstaka meðferð við kíghósta, en meðferðin snýr helst að því að taka verkjalyf og drekka mikinn vökva.
Meðal þess sem hægt er að gera til að hjálpa til við einkennin vegna kíghósta er að hækka undir höfðalaginu við svefn, drekka vel af vökva. Þá geta heitir drykkir hjálpað. Næg hvíld getur hjálpað og að forðast áreiti eins og reykingar og sterk lyktarefni.
Þá getur heit gufa hjálpað til. Hægt er að skrúfa frá heita vatninu inni á baðherbergi, loka að sér og sitja þar inni í 20-30 mínútur.
Hóstasaft gerir lítið gagn gegn kíghósta, að því er segir á vef Heilsuveru.