Lyklaði 36 bíla á Akureyri

Maðurinn lyklaði meðal annars 3 bifreiðum sem stóðu við Menningarhúsið …
Maðurinn lyklaði meðal annars 3 bifreiðum sem stóðu við Menningarhúsið Hof föstudaginn 7. júlí.

Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt karlmann sem búsettur er á Akureyri í hálfs árs fangelsi fyrir að hafa valdið skemmdum á lakki 36 bifreiða á síðasta ári. Notaðist maðurinn við húslykil til að rispa lakk bifreiðanna, en slíkt hefur stundum verið kallað að lykla bifreiðar.

Langflest brotin áttu sér stað í júlí, meðal annars yfir stórar ferðahelgar þar sem mikið fjölmenni var á Akureyri.

Hefur áður hlotið dóma fyrir að lykla bíla

Þetta er ekki fyrsti dómurinn sem maðurinn hlýtur fyrir skemmdir á bifreiðum, en í fyrra hlaut hann tvo dóma fyrir að skemma þrjár bifreiðar á sambærilegan hátt og í þessu máli, sem og fyrir að hafa kastað grjóti og brotið rúður á veitingahúsinu Kaffi lyst í Lystigarðinum. Þá á hann umtalsverðan sakaferil að baki frá árinu 2007, meðal annars fyrir þjónað.

Í málinu sem nú var dæmt í stóðu þær bifreiðar sem maðurinn skemmdi víða um Akureyri. Meðal annars við nokkur íbúðarhús, í miðbænum, við verslanir, við flugvöllinn á Akureyri og á ýmsum bílastæðum.

13 bílar sama daginn

Föstudaginn 7. júlí vann hann skemmdir á 13 bifreiðum sem stóðu við Menningarhúsið Hof og 21. júlí skemmdi hann 12 bifreiðar sem stóðu við tvö fjölbýlishús.

Auk þess að vera gerð fangelsisrefsing upp á sex mánuði var manninum gert að greiða tíu manns samtals 1,8 milljónir í bætur. Bótakröfum þriggja bifreiðaeigenda var hins vegar vísað frá þar sem þær þóttu ekki studdar gögnum.

Dómurinn féll að manninum fjarstöddum, en hann sótti ekki dómþingið þrátt fyrir fyrirkall. Á það sama við síðustu mál mannsins þar sem hann hefur einnig verið dæmdur fyrir skemmdarverk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert