Mun fara sparlega með málskotsréttinn

Katrín Jakobsdóttir segir að forseti þurfi að fara varlega við beitingu málskotsréttarins sem kveðið er á um ístjórnarskrá. Ólafur Ragnar beitti réttinum tvívegis gegn ríkisstjórn sem Katrín sat í. Hún ítrekar hins vegar að réttur forsetans sé skýlaus þegar kemur að því að skjóta málum til þjóðarinnar.

Hún er spurð út í þetta í viðtali í Spursmálum og meðal annars vísað í fyrrnefnt mál sem skók þjóðina á árunum eftir bankahrunið.

Hann [Ólafur Ragnar Grímsson] beitti því af alefli í Icesave-málunum gegn ríkisstjórn sem þú sast í. Hvernig horfir það mál við þér þegar þú horfir til baka og þegar þú sækist eftir því að setjast í þennan stól? Þú varst nú ekki parhrifin af þessum ákvörðunum Ólafs á sínum tíma.

Þingið varð að bregðast við

„Ja, ég rifjaði nú upp hvað ég sagði um þessar ákvarðanir Ólafs á sínum tíma. Og það kom mjög skýrt fram í mínum ræðum í þinginu þá að þessi réttur væri virkur og að forsetinn hefði fullan rétt á að beita honum. Og það að hann hefði beitt honum kallaði einfaldlega á að þingið brygðis við með viðeigandi hætti.“

Greiddi atkvæði með samningunum

En þú studdir samningana og meðal annars samninginn sem þið óskuðuð eftir að þingið samþykkti óséðan.

„Ég greiddi atkvæði með þessum samningum. þeim var svo skotið til þjóðarinnar. En ég vil rifja upp í þessu máli að þetta eru alveg einstakir tímar í sögu þjóðarinnar. Gríðarlega stór verkefni og erfið sem þurfti að leysa. Og ég tel satt að segja að þingmenn allir, sama hvar þau stóðu á sínum tíma í þessum málum hafi verið að reyna að vinna að þjóðarhag. Ég tel líka að forsetinn hafi verið að vinna að þjóðarhag þegar hann skaut málinu til þjóðarinnar, ekki einu sinni heldur tvisvar.“

Hvernig hefðir þú brugðist við í þessum aðstæðum miðað við að þú samþykktir þessa samninga sem hann virtist setja mikla fyrirvara við?

Katrín Jakobsdóttir er mætt í Spursmál og ræðir þar meðal …
Katrín Jakobsdóttir er mætt í Spursmál og ræðir þar meðal annars málskotsrétt forseta Íslands sem hún segir fortakslausan. mbl.isKristinn Magnússon

„Ég í raun og veru að mín reynsla úr pólitíkinni, því nú verð ég vör við að það er gagnrýnt að forsetaframbjóðandi komi í stjórnmálum, geri mig færari til þess að geta lagt mat á slík stórmál með óhlutdrægum hætti, einmitt  vegna þess að maður hefur gengið í gegnum þá reynslu að fara í gegnum til að mynda þessi mál. Við getum síðan rætt hvernig það endaði allt þegar uppi var staðið og skuldirnar voru greiddar og allt það og málið vannst og fleira.“

Af umhyggju fyrir þjóðarhag

Og þjóðin hélt reisn sinni sem var líka stórmál.

„En það er mín sannfæring líka, og það kom fram alveg um leið að þessi réttur var virkur og forsetinn var í fullum rétti að nýta hann og gerði það af umhyggju fyrir þjóðarhag eins og ég tel raunar að þingmenn hafi gert í fyrra og seinna málinu.“

Viðtalið við Katrínu Jakobsdóttur má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan. Auk hennar mættu í þáttinn þau Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi og Börkur Gunnarsson, kvikmyndagerðarmaður og fyrrum rektor Kvikmyndaskóla Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert