Ný gámabyggð á bílaplaninu við Vörðuskóla í Reykjavík hefur eflaust ekki farið fram hjá glöggum vegfarendum um Barónsstíg en þar verður leikskólinn Ævintýraborg opnaður síðar á þessu ári.
Þetta er fjórði leikskólinn sem er hluti af verkefninu Ævintýraborgir sem hófst árið 2021 til að fjölga leikskólaplássum í Reykjavík. Einkennandi fyrir þessa leikskóla eru færanlegar gámaeiningar sem Reykjavíkurborg hefur tekið í langtímaleigu af fyrirtækinu Terra einingum ehf.
Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg er stefnt að því að starfsemi á leikskólanum hefjist í ár, ef allt gengur að óskum. Þetta verður fimm deilda leikskóli sem getur tekið við allt að 75 börnum frá 12 mánaða aldri.