Nauðgaði kærustu sinni og tók það upp

mbl.is/Kristinn Magnússon

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt sextugan karlmann, Elmar Örn Sigurðsson, í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir að hafa nauðgað þáverandi kærustu sinni í tvígang þar sem hún lá sofandi eða meðvitundarlítil í rúmi og tekið nauðganirnar upp. Einnig var hann sakfelldur fyrir að hafa dreift myndefninu, en hann setti myndskeiðin á USB-lykil og setti í póstkassa konunnar.

Var Elmari jafnframt gert að greiða 3,5 milljónir í sakarkostnað og 2,2 milljónir í bætur til konunnar. Hann hefur áður hlotið dóm fyrir blygðunarsemisbrot og að hafa smánað konuna, en hafði áður verið sýknaður af nauðgun.

Í dóminum er ítarlega greint frá málsatvikum og er rétt að vara við lýsingum sem fylgja í fréttinni.

USB-lykill með myndböndum

Fram kemur í dóminum að fólkið hafi átt stormasamt samband sem litaðist af mikilli áfengisdrykkju og alkóhólisma. Lýsti konan því meðal annars að þau hefðu oft drukkið mikið saman heima hjá öðru hvoru þeirra þangað til þau væru mjög drukkin, en oft hafi þau stundað kynlíf eftir það. Sagðist hún oft ekki hafa verið meðvituð um kynlífið og sagði að hún hefði áttað sig á því daginn eftir vegna eymsla í kynfærum og sogbletta á hálsi.

Við aðalmeðferð fyrra dómsmáls gegn Elmari lét réttargæslumaður konunnar saksóknara í hendur USB-lykil þar sem var að finna tvö myndskeið sem sýndu Elmar hafa kynmök við konuna þar sem hún lá rænulitla eða meðvitundarlítil. Hafði Elmar sett USB-lykilinn í umslag og sett í póstkassa konunnar, en á umslaginu stóð „Frá Símanum þínum Backup úr tölvu og fl.“

Hófst því rannsókn að nýju og var Elmar að lokum ákærður í þessu máli fyrir nauðgun og fyrir upptöku á myndböndunum og dreifingu án vitundar konunnar.

Konan sagðist ekki hafa skoðað efni lykilsins strax og því hefði það ekki komið fram fyrr en við aðalmeðferð fyrra málsins. Sagðist hún ekki hafa haft hugmynd um upptökuna og að augljóst væri að hún væri rænulaus á upptökunni. Þá sýndi hún tölvupósta frá Elmari sem sýndu að hann hafði sent lykilinn til hennar.

Gaf til kynna að annar maður væri á myndböndunum

Elmar neitaði sök hjá lögreglu og hafnaði því að hafa tekið upp kynlífsmyndböndin. Þá neitaði hann að tjá sig um umslagið. Sagði hann að það hefðu alltaf verið myndbönd af konunni með einhverjum sem hún væri „að reyna að stílfæra yfir á sig“ og að hún hefði haft aðgang að heimili hans, en myndböndin eru tekin upp þar sem konan liggur í rúmi í íbúð hans.

Tímastimplar á myndböndunum sýndu að þau voru tekin í janúar og september 2017. Þá sýndu hnit sem fylgdu myndskeiðunum að þau voru tekin upp í húsnæði Elmars, en þau voru tekin upp á Samsung síma.

Svipbrigðalaus og rænulaus

Í dómnum er því lýst hvernig konan sést í fyrra myndbandinu nakin í rúmi og að karmaður sé þar að hafa við hana samfarir. Þá spyr maðurinn:  „Ætlarðu að giftast mér A mín“ [nafn konunnar er tekið úr dóminum]. Heyrist konan umla eitthvað, en hann endurtekur þá „viltu giftast mér“ og endurtekur það svo nokkrum sinnum í viðbót.

Jafnframt kemur fram að konan hafi verið lokuð augu og alveg svipbrigðalaus og ekkert brugðist við spurningum mannsins, en maðurinn beinir myndavélinni í átt að kynfærum þeirra og segir „dísús hvað þetta er fallegt“ og „þú ert fallegasta konan í heiminum ástin mín“. Þá strýkur hann um líkama hennar, en hún reynir að banda hönd sinni í átt að honum. Þá tekur maðurinn hönd hennar og færir í átt að kynfærum þeirra og segir „ýttu honum inn“ en hún dregur höndina að sér.

„Spriklaðu, hreyfðu þig ástin mín

Fyrra myndbandið er um ein mínúta og virðist vera tekið upp af manninum þannig að hann haldi á símanum með hægri hönd.

Seinna myndbandið er talsvert lengra og sjást í því kynfæri þeirra í mikilli nærmynd og aftur konan þar sem hún liggur á rúminu og er meðvitundarlítil. Segir konan lágt „nei“ en maðurinn svarar „jú, við ætlum að selja þetta myndband“. Því næst segir hann „ástin mín, komdu“ og „spriklaðu, hreyfðu þig ástin mín og meira, oh ástin mín, meira.“

Er því jafnframt lýst að konan hafi hreyft sig lítið og ekkert brugðist við þessum orðum, auk þess sem sviplaust andlit konunnar sést þar sem hún liggur hreyfingarlaus og meðvitundarlítil. Spyr maðurinn hana svo hvort hún hafi fundið fyrir fullnægingu sinni en hún svarar engu og er áfram nánast hreyfingarlaus.

Er upptaka seinna myndbandsins svipuð þess fyrra.

Neitaði sök og sagði þetta hlutverkaleik

Fyrir dómi var Elmar spurður út í athafnirnar og sagði hann þau hafa stundað hlutverkaleiki í kynlífi þar sem annað þeirra væri drottnari og hitt ambátt. Sagði hann samband þeirra hafa litast af mikilli drykkju og þau oft stundað kynlíf drukkin. Neitaði hann því hins vegar að hafa stundað við hana samfarir þegar hún var sofandi eða meðvitundarlítil. Þá neitaði hann að hafa útbúið minnislykilinn, en staðfesti að þau væru bæði á myndböndunum.

Spurður út í hvers vegna konan væri rænulítil sagði hann það vegna þess að hún væri búin að fá fullnægingu og þess vegna væri svona rólegt yfir henni. Sagði hann konuna fullfríska og eins og hann þekkti til hennar.

Varðandi seinna myndbandið sagðist hann það tengjast því að hún væri að segja nei við að hann myndi selja myndbandið, en það tíðkaðist í tengslum við BDSM að setja myndbönd á klámsíður á netinu.

Sagði hann hafa „hjakkast“ á sér rænulausri

Konan lýsti því fyrir dómi að þau hefðu drukkið mikið saman og oft endað upp í rúmi, en aldrei verið í hlutverkjaleikjum. Sagði hún að oft hefði hann „hjakkast“ á sér þar sem hún væri sofandi eða hálfsofandi og að hún hefði stundum uppgötvað það daginn eftir. Sagðist hún einnig oft hafa látið kynlíf eftir honum til að losna við hann, en það þýddi ekki að hún hefði gefið leyfi til að hann hefði við hana samfarir þegar hún væri dauðadrukkin.

Þá sagði konan að hann hefði ítrekað tekið upp kynlífsmyndbönd og grínast með það, en hún beðið hann að láta af því. Sagðist hún fyrst hafa uppgötvað tilvist myndskeiðanna árið 2022. Þá sagðist konan ekki hafa leikið að liggja grafkyrr eða hreyfingarlaus í kynlífi.

Málatilbúnaði Elmars hafnað 

Í dómi héraðsdóms segir að ljóst sé af myndbandinu að konan sé ekki að taka þátt í samförunum og að ekkert bendi til hlutverkaleiks. Þannig sé rænuleysi hennar greinilegt og að framburður Elmars einkennist af mótsögnum sem valdi því að framburður hans sé metinn ótrúverðugur. Þannig sé meðal annars augljóst að hann tók upp myndskeiðin, sem sé í andstöðu við framburð hans.

Er framburður hans sagður fráleitur, meðal annars þegar komi að því að hann hafi tekið við síma frá konunni þar sem hún átti að hafa verið búin að kveikja á upptöku og rétt honum.

Er það niðurstaða héraðsdóms að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að Elmar hafi nauðgað konunni í báðum tilfellum og tekið myndbandið upp. Jafnframt, meðal annars með vísun í tölvupósta þar sem hann sagði „jæga sett allt dotið þitt í póstkassa í fyrramálið allar myndir og klámmyndurnar okkar líka“ að þá sé ljóst að hann hafi dreift myndskeiðinu á USB-lykil og sent til hennar.

Braut „gróflega gegn kynfrelsi“ konunnar

Bætist dómurinn núna við fyrri dóm og er honum gerður refsiauki og þar með samanlagt þriggja og hálfs árs fangelsisvist.

Tekið er fram í dóminum að með brotunum hafi hann brotið „gróflega gegn kynfrelsi“ konunnar og að þau hafi verið til þess fallin að valda konunni miklum miska og vanlíðan og falið í sér „grófa röskun á friðhelgi einkalífs“ hennar.

Þá er vísað til dómafordæma þar sem mikil hætta er sögð að myndefni sem þetta geti farið í stjórnlausa dreifingu á vefnum með ófyrirsjáanlegum afleiðingum og því hafi hann með dreifingu og sendingu efnisins valdið tjónshættu.

Er Elmari jafnframt gert að greiða konunni 2,2 milljónir í bætur og allan sakarkostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka