Veðurstofa Íslands segir að sú staða sem er uppi núna á Reykjanesskaga sé ný, þar sem eldgos með frekar stöðugu hraunrennsli sé í gangi á Sundhnúkagígaröðinni á sama tíma og land rís í Svartsengi. Því sé meiri óvissa nú en áður um mögulega þróun atburðarins.
Þetta kemur fram í nýrri færslu á vef Veðurstofu Íslands.
Þar segir, að eftir að fjórða eldgosið hófst þann 16. mars hafi landris hægt verulega á sér fyrst um sinn og nánast stöðvast. Það hafi gefið til kynna að jafnvægi væri á innstreymi kviku inn í kvikuhólfið undir Svartsengi og uppá yfirborð í Sundhnúkagígaröðinni.
„Í byrjun apríl fór landris að aukast aftur og er nú um það bil jafn stór hluti kvikunnar að flæða upp á yfirborð og er að safnast fyrir í kvikuhólfinu undir Svartsengi með tilheyrandi auknum kvikuþrýstingi.
Sú staða sem er uppi núna er ný, þar sem eldgos með frekar stöðugu hraunrennsli er í gangi á Sundhnúkagígaröðinni á sama tíma og land rís í Svartsengi. Því er meiri óvissa nú en áður um mögulega þróun atburðarins,“ segir í færslunni.
Þá segir að hingað til hafi verið talað um auknar líkur á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi í kjölfar þess í tengslum við atburðarrásina á Sundhnúkagígaröðinni.
„Gott er að rifja upp að kvikuhlaup er skyndilegt og mikið flæði af kviku sem streymir út úr kvikuhólfi og getur endað með því að kvika nær að brjótast upp á yfirborð. Eftir kvikuhlaupið 2. mars, sem endaði ekki með eldgosi, varð breyting á virkninni sem hafði frá desember verið nokkuð formföst.
Haldi kvikusöfnun áfram á svipuðum hraða aukast líkur á öðru kvikuhlaupi á næstu dögum eða vikum, þrátt fyrir að eldgos sé enn í gangi. Það að fá kvikuhlaup út úr kvikuhólfinu í Svartsengi samhliða eldgosinu sem nú er í gangi, er sviðsmynd sem ekki hefur verið uppi áður. Meiri óvissa er því um þróun jarðhræringanna næstu daga eða vikur,“ segir Veðurstofan.
Líkleg atburðarrás ef kvikuhlaup á sér stað samhliða núverandi eldgosi: