Ráðamenn í háaloftum: „Maður var pínu skelkaður“

Borgarstjóri Reykjavíkur og bæjarstjórar höfuðborgarsvæðisins fengur að fara upp í …
Borgarstjóri Reykjavíkur og bæjarstjórar höfuðborgarsvæðisins fengur að fara upp í körfurnar. mbl.is/Arnþór Birkisson

Borgarstjóri Reykjavíkur ásamt bæjarstjórum höfuðborgarsvæðisins voru viðstaddir skemmtilega athöfn í morgun er nýir körfubílar voru afhentir slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu. Fengu þeir að skella sér í körfurnar og fóru upp í allt að 45 metra hæð.

„Þetta var alveg frábært. Mjög hressandi í morgunsárið að skella sér í brunabílinn. Þetta eru auðvitað mikil tímamót fyrir slökkviliðið að fá þessa bíla,“ segir Einar Þorsteinsson borgarstjóri í samtali við mbl.is.

Var engin lofthræðsla?

„Nei nei. Maður var bara öruggur í öryggisbúnaði og mér líður bara vel í þessari hæð,“ segir Einar og hlær.

Einar Þorsteinsson segir að þetta hafi verið hressandi byrjun á …
Einar Þorsteinsson segir að þetta hafi verið hressandi byrjun á deginum. mbl.is/Arnþór Birkisson

Lykilatriði að geta þjónustað háhýsi

Tveir eldri körfubílar frá 1999 og 2005 verða seldir að sögn Einars en þeir fara ekki jafn hátt og nýju körfubílarnir og eru ekki með jafn góða og nýja tækni og er í nýju bílunum.

Þá nefnir Einar einnig að erfitt geti reynst að fá varahluti í eldri bílana sökum aldurs.

„Það er lykilatriði að vera með bíla sem geta þjónustað þessi háhýsi sem verið er að byggja á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Einar.

Fékk smá fiðring í magann

Púlsinn var einnig tekinn á bæjarstjórum höfuðborgarsvæðisins eftir að þeir stigu úr körfunum. Nefndu þeir flestallir að þeir fengu að fara í gömlu körfubílanna fyrir ári síðan og voru þeir því með smá reynslu af því að stíga upp í körfubíla.

Þó nefndu þeir allir að þetta hafi verið hærra og að öryggistilfinningin hafi verið meiri í nýju bílunum. Fögnuðu þeir allir komu nýju körfubílanna.

Þarna má sjá ráðamennina ásamt slökkviliðsstjóranum og fulltrúa frá Bronto …
Þarna má sjá ráðamennina ásamt slökkviliðsstjóranum og fulltrúa frá Bronto Skylift í Finn­landi. Arnþór Birkisson

„Ég er sem betur fer ekki lofthrædd en þetta var rosalega skemmtilegt og gaman að sjá svona yfir – virkilega flott útsýni,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, í samtali við mbl.is.

Ásdís var í körfunni með Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóra Hafnarfjarðar, Jón Viðari Matthíassyni, slökkviliðsstjóra höfuðborgarsvæðisins, og Einari borgarstjóra.

„Auðvitað fær maður smá svona fiðring í magann að vera svona hátt uppi,“ segir Ásdís.

Ásdís var hæstánægð með körfubílinn.
Ásdís var hæstánægð með körfubílinn. mbl.is/Arnþór Birkisson

Er ferlega lofthræddur

Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar, var í körfubílnum sem fór í 32 metra hæð. Hann kveðst vera ferlega lofthræddur og spurður hvort að hann hafi verið skelkaður segir hann:

„Já ég verð að segja það, þetta er svolítið hátt. En þetta eru svakalegar græjur og ég er ánægður með þennan tækjakost, þetta veitir okkur meira öryggi,“ segir Þór í samtali við mbl.is.

Frábært að komast á toppinn

Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, var í samfloti með Þór í körfubílnum.

„Þetta gekk bara vel og maður var mjög hugaður. En jú, þetta er ekki það sem maður gerir á hverjum degi. Maður var pínu skelkaður en aðallega var þetta bara gaman og geggjað útsýni,“ segir Almar í samtali við mbl.is.

Ráðamennirnir mættust á miðri leið í háaloftunum og skiptust á …
Ráðamennirnir mættust á miðri leið í háaloftunum og skiptust á lyklum. mbl.isArnþór Birkisson

Að lokum ræddi mbl.is við Rósu sem fékk þarna að sjá bæinn sinn úr 45 metra hæð.

„Þetta var bara alveg stórkostlegt og frábært að komast svona á toppinn og horfa á bæinn sinn og allt þetta umhverfi – þetta var æði.“

Einar tók á móti lyklunum af bílunum frá fulltrúa Bronto …
Einar tók á móti lyklunum af bílunum frá fulltrúa Bronto Skylift í Finn­landi. mbl.is/Arnþór Birkisson
Rósa segir upplifunina hafa verið stórkostlega.
Rósa segir upplifunina hafa verið stórkostlega. mbl.is/Arnþór Birkisson
mbl.is/Arnþór Birkisson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert