Svikarar á ferli sem aldrei fyrr

Sparisjóðurinn indó ræður viðskiptavinum sínum heilt í umgengni við peningana …
Sparisjóðurinn indó ræður viðskiptavinum sínum heilt í umgengni við peningana sína á lýðnetinu þar sem aldrei verður of varlega farið. Ljósmynd/Aðsend

„Nú eru svikarar á ferli sem aldrei fyrr,“ segir í tilkynningu sem indó sendir frá sér, ekki banki, það er kirfilega tekið fram á heimasíðu fyrirtækisins, heldur sparisjóður. Eru þar gefin nokkur heilræði hvað varðar rafræna umgengni við fjármálastofnanir og -fyrirtæki, eða þá óprúttnu aðila sem koma fram í gervi slíkra fyrirtækja og gengur misgott til ætlunar.

Starfsfólk indó, sem að eigin sögn hefur „nördalegan áhuga á tækni og fjármálum“, hefur því tekið saman nokkur atriði sem það segir gott að hafa í huga til að vernda sig.

Þar eru helstu atriði eftirfarandi:

Viðskiptavinir eiga aldrei að senda neinum korta-, leyni- eða PIN-númer sín.

Aldrei skulu þeir heldur leggja kortanúmer sín inn á hlekki sem einhver sendir þeim, „sama þótt það sé vinur þinn“ segja ráðgefendur indó.

Benda þeir enn fremur á að svindlarar geti verið afar sannfærandi og talað mjög góða íslensku, jafnvel náð sama tóni og vinir og kunningjar í skriflegum samskiptum á samfélagsmiðlum.

Og síðast en ekki síst að ráði indó:

Aldrei að samþykkja skráningu með rafrænum skilríkjum, nema þú sért að skrá þig inn.

Svo mörg voru þau orð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert