„Þeir hafa ekki alveg verið að standa við sitt“

Ljósmynd/Aðsend

Ungir umhverfissinnar og umhverfis- og samgöngunefnd Stúdentaráðs Háskóla Íslands efndu til loftlagsverkfalls fyrir loftlagsjafnrétti á Austurvelli í hádeginu. Mótmælendur voru reiðir vegna aðgerðarleysis.

Þetta segir Cody Skahan, forseti loftlagsnefndar Ungra umhverfissinna, í samtali við mbl.is.

„Okkur líður eins og við séum búin að leggja á okkur mikla erfiðisvinnu og setja mikinn tíma í að koma hlutum í verk. Við erum búin að ræða við stjórnmálamenn en þeir hafa ekki alveg verið að standa við sitt.“

Þegar mest á lét voru 50 manns á mótmælunum, að hans sögn, og voru yngstu mótmælendurnir 8 ára gamlir.

Vildu láta banna plastumbúðir á innlenda framleiðslu

Segir hann að í síðustu viku hafi Ungir umhverfissinnar afhent Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, stefnuplagg um bann við notkun plastumbúða á innlenda framleiðslu.

„Við ræddum við bændur og við ræddum við Krónuna – og fengum þau með okkur í þetta – en þegar við ræddum þetta við ráðherrann sagði hann að þetta vera nokkuð róttækt og að við þyrftum ræða við fleiri aðila og fá fleiri til að mæla með einhverju. Jafnvel þó að við hefðum þegar gert alla þá vinnu og sáum fyrir okkur að þetta yrði auðveldur sigur,“ segir Skahan.

Hann segir þó þrautseigjuna mikla hjá þeim og munu þeir halda áfram að kynna fyrir stjórnmálamönnum stefnuplögg og aðgerðir.

Eru með þrjár kröfur

Meginþema verkfallsins er í takti við alþjóðleg loftlagsverkföll fyrir loftlagsjafnrétti, að sögn Skahan. Kröfurnar voru þrjár og sú fyrsta var sú að innleiða rétt barna til heilnæms umhverfis sem myndi þá opna á möguleika til að geta stefnt íslenska ríkinu fyrir alþjóðadómstólum ef umhverfið er ekki heilnæmt.

„Þetta myndi gera ungu fólki kleift að sækja Ísland til saka hjá alþjóðadómstólum ef brotið er á rétti ungs fólks til heilnæms umhverfis – sem við teljum það þegar hafa gert og gerir áfram,“ segir Skahan.

Næsta krafa er sú að „réttindi náttúrunnar“ verði innleidd í stjórnarskrá og að allir Íslendingar eigi sameiginlega náttúruauðlindir landsins.

Þriðja krafan er sú að Ísland fylgi alþjóðasáttmálum sem stjórnvöld hafa þegar skrifað undir, eins og Parísarsáttmálinn. Segir hann loftslagsbreytingar bitna mest á fátækari þjóðum og því þurfi alþjóðasáttmála til að berjast gegn loftslagsbreytingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka