Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra ræddi meðal annars stuðning við Úkraínu og málefni Mið-Austurlanda við Kurt Campbell, varautanríkisráðherra Bandaríkjanna, á fundi í bandaríska utanríkisráðuneytinu í Washington-borg í Bandaríkjunum í dag.
Þá voru tvíhliða samstarf Íslands og Bandaríkjanna rædd, og leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins sem haldinn verður í Washington í sumar. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Þar segir einnig frá því að í dag hafi Þórdís Kolbrún skrifað undir nýtt samkomulag um aukin framlög Íslands til Hnattræna jafnréttissjóðsins (e. Global Equality Fund), sem er á forræði bandaríska utanríkisráðuneytisins.
„Þetta er fimmta árið sem Ísland leggur fé til sjóðsins sem beinir stuðningi sínum til frjálsra félagasamtaka sem vinna að mannréttindum hinsegin fólks,“ segir í tilkynningunni.