Viðbúnaður á Keflavíkurflugvelli vegna vélar Delta

Keflavíkurflugvöllur. Mynd úr safni.
Keflavíkurflugvöllur. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Airbus-þota frá flugfélaginu Delta á leiðinni frá London til Los Angeles var snúið frá leið sinni og lendir bráðlega á Keflavíkurflugvelli. 

Þetta segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, í samtali við mbl.is. 

Um rautt útkall er að ræða og eru viðbragðsaðilar, þar á meðal slökkvilið, tilbúnir að taka á móti flugvélinni. Litakóðinn miðast við fjölda fólks sem er í vélinni sem er í vandræðum.

Ríkisútvarpið hefur það eftir heimildum sínum að gufur séu inni í flugstjórnarrými flugvélarinnar.

Uppfært 19.40

Vélin er lent heilu og höldnu á Keflavíkurflugvelli og er komin í stæði, að sögn Guðjóns. Hann veit ekki til þess að það hafi orðið slys á fólki. 

Betur fór en á horfðist, miðað við aðstæður að minnsta kosti. Nú verður rannsakað frekar hvað olli því að flugvélin þurfti að lenda í Keflavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert