Geir Áslaugarson
Einar Þorsteinsson borgarstjóri segir að ekki sé hægt að biðja fólk um að breyta ferðavenjum sínum án þess að bjóða þeim upp á öflugri samgöngur.
Þetta kom fram í ræðu Einars á 37. flokksþingi Framsóknar á hótelinu Hilton Reykjavík Nordica fyrr í dag. Yfirskrift fundarins var: „Kletturinn í hafinu“.
Einar sagði öra fólksfjölgun Reykjavíkurborgar reyna á alla innviði borgarinnar. Þá sagði hann það útilokað fyrir höfuðborgarsvæðið að halda áfram að stækka nema að innviðaframkvæmdir samgöngusáttmálans komist til framkvæmda.
„Það þýðir ekkert að segja fólki að breyta ferðavenjum sínum – að fækka bílferðum – nema að bjóða upp á raunverulegan valkost með öflugum samgöngum,“ sagði Einar.
Hann sagði skautun í samfélaginu vera færast í aukanna. Fólk væri farið að hatast út í hvort annað og hætt að vinna saman. Í því samhengi tók hann uppgang Donalds Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, í Bandaríkjunum sem dæmi.
Hann sagði eina mótvægið við þessu ástandi vera samvinnu án öfga að miðjunni og sagði framsóknarmenn í borginni leggja áherslu á samvinnu í borgarstjórn.