Segir Samfylkinguna apa eftir Framsókn

Sigurður Ingi á flokksþinginu.
Sigurður Ingi á flokksþinginu. mbl.is/Óttar

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Framsóknarflokksins, segir Samfylkinguna hafa tekið stefnumál Framsóknarflokksins og gert að sínum eigin. Hann segir það nýja stöðu í stjórnmálum að flokkar lofi stefnumálum sem aðrir hafi þegar komið í framkvæmd. 

Þetta kom fram í ræðu Sigurðar á 37. flokksþingi Framsóknar á hótelinu Hilton Reykjavík Nordica fyrr í dag. Yfirskrift fundarins var: „Kletturinn í hafinu“.

Frá flokksþinginu.
Frá flokksþinginu. mbl.is/Óttar

Stærsta verkefnið að ná tökum á verðbólgu

Sigurður fór yfir víðan völl í ræðunni sinni og ræddi meðal annars verðbólguáhrif, jarðhræringar á Reykjanesskaga, innrás Rússlands í Úkraínu og kjarasamninga.

Hann vakti athygli á því að Íslandi væri ein fárra þjóða sem hefði viðurkennt Palestínu sem sjálfstætt ríki og sagði hættuna á stigmögnun átaka á svæðinu vera verulega.  

Ríkisstjórn Íslands.
Ríkisstjórn Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samkvæmt Sigurði mun kostnaður hins opinberra lækka verulega með tilkomu nýrra útlendingalaga þar sem afgreiðslutími umsókna um alþjóða vernd verður styttur og með því að flýta afgreiðslu umsækjenda frá Venesúela.

Þá sagði hann að samstaða ríkisstjórnarinnar í málefnum útlendinga byggði á mannúð, að dreginn yrði lærdómur frá nágrannalöndum og að allir myndu fá tækifæri og að enginn yrði skilinn eftir. 

Stærsta verkefnið hér á landi sagði hann þó vera að ná tökum á verðbólgu. 

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hrósaði Lilju í hástert

Sigurður hrósaði samflokksmönnum sínum í ráðherrastóli og þá sérstaklega Lilju Dögg Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformanni Framsóknarflokksins. Hann fullyrti að enginn ráðherra menningarmála hefði unnið af jafnmiklum krafti og heilindum fyrir menningu og listir í landinu. 

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ánægður með búvörulögin

Sigurður sagði nýju búvörulögin vera í samræmi við lög í nágrannalöndum og að oft þegar verið væri að bæta stöðu bænda yrði uppi fótur og fit „í heildsalaklúbbnum og dramatískar yfirlýsingar falla um árás á neytendur og jafnvel grunnstoðir samfélagsins,“ sagði Sigurður og hélt áfram: 

„Hverra hagsmuna værum við að gæta með því? Já, maður spyr sig, hverra hagsmuna? Því ekki eru það hagsmunir neytenda að bændur flosni upp og við þurfum að reiða okkur algjörlega á innflutning.“

Lausnin á miðjunni

Þegar kom að orkumálum sagði Sigurður að ekki væri einungis rifist um hvort væri rétt að virkja minna eða meira. Einnig væri rifist um „hvort hér sé orkuskortur eða orkugnótt. Eitthvað sem maður hefði haldið að skynsamt fólk gæti orðið sammála um hvort væri“.

Hann sagði lausnina í orkumálum, eins og í flestum málum, vera á miðjunni og sagði að stolt ætti að ríkja um getu Íslands við framleiðslu á grænni orku. 

„Framsókn stendur í miðju stjórnmálanna, kletturinn í hafinu, sem haggast ekki mikið þótt brjóti á. Veður stjórnmálanna er ekki ólíkt íslenskri veðráttu með það að það skiptast á skin og skúrir. Það er mikilvægt í suddatíð að muna eftir sólskinsdögum og halda reisn, setja undir sig hausinn og vinna.“ 

Skaut föstum skotum á Samfylkinguna

Sigurður sagði Framsóknarflokkinn eiga eftir að uppskera þegar að kosningum kemur þótt þjóðin virtist gleyma honum í kringum skoðanakannanir. 

Þá skaut hann föstum skotum á Samfylkinguna sem hann sagði taka hringrásahagkerfið svo alvarlega að flokkurinn væri farinn taka stefnumál frá Framsóknarflokknum og gera að sínum.

Svo langt gekk Samfylkingin reyndar í kosningabæklingi sínum um heilbrigðiskerfið að þau lýstu í sumum tilfellum aðgerðum sem Willum [Þór Þórsson heilbrigðisráðherra] hefur nú þegar komið í framkvæmd. Það er alveg ný staða í stjórnmálum þegar flokkar eru farnir að lofa að gera það sem aðrir hafa þegar gert, en er ekki oft sagt að eftirherman sé æðsta stig aðdáunar,“ sagði Sigurður Ingi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert