Geir Áslaugarson
Slæmt veður skyggir á vefmyndavélar Veðurstofu Íslands hjá gosstöðvunum við Sundhnúkagíga og hindrar flug yfir svæðið.
Staðan á gosinu er þó með svipuðu móti og hefur verið undanfarið og engar sýnilegar breytingar í kortunum.
„Við gerum þó ráð fyrir að gosið sé enn í gangi,“ segir Hildur María Friðriksdóttir, sérfræðingur á sviði jarðskorpuhreyfinga hjá Veðurstofu Íslands.
Hildur María segir skjálftavirkni vera litla og þenslu með sama móti og undanfarið.
Spurð út í framhaldið varðandi annað gos segir hún: „Við búumst í raun og veru ekki við neinu í dag eða á næstunni. Við viljum bara hafa vaðið fyrir neðan okkur og erum öllu viðbúin.“
Hún segir engin fundarhöld á dagskrá í dag varðandi gosóróa og segir engin flug á dagskrá yfir gosstöðvarnar, enda ekki veður til þess.
„Af því að það eru engar breytingar að sjá þá eru allir nokkuð slakir yfir stöðunni núna,“ segir hún.