Afþakkaði orðuna en hyggst veita hana

Katrín Jakobsdóttir afþakkaði boð forseta Íslands um stórkross fálkaorðunnar, skömmu eftir að hún tók við embætti forsætisráðherra. Hefð er fyrir því að forsætisráðherrar séu sæmdir henni.

Þrátt fyrir þetta segist Katrín ætla að veita orðuna, verði hún kjörin forseti og þar með stórmeistari fálkaorðunnar, m.a. forsætisráðherrum og öðrum æðstu embættismönnum ríkisins eins og hefð er fyrir.

Þetta er upplýst í nýjasta þætti Spursmála þar sem Katrín situr fyrir svörum.

Sá einstaklingur sem tekur við embætti forseta þann 1. ágúst næstkomandi hlýtur sjálfkrafa stórkross fálkaorðunnar og tekur samhliða við sem stórmeistari orðunnar í stað fráfarandi forseta, Guðna Th. Jóhannessonar. Eliza Reid, fráfarandi forsetafrú var einnig sæmd stórkrossi orðunnar þann 1. ágúst 2016, þegar Guðni tók fyrst við embætti.

Ekki allir makar forsetanna stórriddarar

Það er þó ekki sjálfgefið að maki forseta hljóti hina miklu upphefð. Þannig voru þær Georgía Björnsson og Dóra Þórhallsdóttir, eiginkonur fyrstu forsetanna tveggja sæmdar stórkrossi. Það átti ekki við um Halldóru Eldjárn, eiginkonu Kristjáns Eldjárns og heldur ekki eiginkonur Ólafs Ragnar Grímssonar, Guðrúnu Katrínu Þorbergsdóttur og Dorrit Moussaieff.

Katrín Jakobsdóttir er nýjasti gestur Spursmála og ræðir þar meðal …
Katrín Jakobsdóttir er nýjasti gestur Spursmála og ræðir þar meðal annars um framtíð fálkaorðunnar. mbl.isKristinn Magnússon

Orðaskipti Katrínar við þáttarstjórnanda um fálkaorðuna og afstöðu hennar til orðunnar má sjá í spilaranum hér að ofan en þau eru einnig rakin í textanum hér fyrir neðan.

Eitt af því sem leggst á þínar herðar, verðir þú kjörin þann 1. júní næstkomandi er að verða stórmeistari fálkaorðunnar sem veitt er að minnsta kosti tvisvar á ári við formlegar athafnir og oftar. Hver er afstaða þin til orðunnar, hyggstu halda í hana eða muntu beita þér fyrir því að hún verði lögð af?

„Nei, alls ekki að leggja hana af. Mér finnst hún mjög mikilvæg. Ég hef kannski...“

Þú hefur sjálf afþakkað stórkrossinn sem þú átt tilkall til sem forsætisráðherra.

„Já. Og ég segi. Það er orðunefnd sem gerir tillögu um það hver fær orðu hverju sinni.“

Eða forsetinn beint.

Frá innsetningu Guðna Th. Jóhannessonar í embætti. Þar sést hann …
Frá innsetningu Guðna Th. Jóhannessonar í embætti. Þar sést hann með keðju stórmeistara fálkaorðunnar. Sigurðu Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra með stórkross og borða en Markús Sigurbjörnsson, forseti hæstaréttar og Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis með stórriddarakross sem borinn er um háls orðuþega. mbl.is/Freyja Gylfa

„Eða forsetinn beint. Og mér finnst, ég var einmitt spurð að þessu, gaman að segja frá því, ég hef verið spurð að þessu á einum þeirra funda sem ég sat. Og mér finnst sko fálkaorðan eiga að snúast um það þegar fólk hefur verið að beita sér með óeigingjörnum hætti í þágu samfélagsins. Í sjálfboðastarfi í íþróttahreyfingunni, hefur náð framúrskarandi árangri í einhverskonar samfélagsstörfum, menningu, listum. Fyrst og fremst lít ég þannig á orðuna en ekki endilega að hún sé sjálfsagður hluti af því að gegna því starfi sem maður gegnir...“

Afþakkaði en mun veita öðrum forsætisráðherrum orðuna

En þú afþakkaðir hana...

 „Já, það var eiginlega vegna þessarar afstöðu minnar.“

En þá munt þú ekki sæma næstu forsætisráðherra, eða biskupa eða hæstaréttardómara þessum orðum miðað við þessar forsendur sem þú leggur til grundvallar orðunni.

Keðja stórmeistara fálkaorðunnar ásamt stórkrossi.
Keðja stórmeistara fálkaorðunnar ásamt stórkrossi. Ljósmynd/Forsetaembættið

„Ja, þetta hefur verið mín afstaða en ég er líka íhaldssöm að því leyti að mér hefur einnig þótt mikilvægt að halda utan um fyrirkomulag sem fólki þykir vænt um þótt ég hafi tekið þá afstöðu persónulega að ég ætti ekki skilið að fá orðuna eftir mánuð í embætti.“

En þegar forseti Íslands kemur til þín og segir sem forseti og stórmeistari reglunnar, nú ætla ég að sæma þig stórkrossinum og þú afþakkar hana, ert þú þá ekki að senda henni langt nef?

„Nei alls ekki. Enda var ég ekkert að auglýsa þetta. Datt það nú ekki til hugar.“

Ég er að auglýsa það.

„Já þú ert að því, fyrir mína hönd. Ég bara lít á þetta, þetta er heiður samfélagsins til fólks sem hefur lagt sig allt fram fyrir samfélagið. ÞAnnig sé ég orðuna. Þess vegna hugsaði ég, þegar mér var boðin hún eftir skamman tíma í embætti, hef ég gert nóg til að eiga þessa orðu skiið?“

Það verður hver að svara því fyrir sig.

„Já akkúrat.“

Orða frá árinu 1921

Það var Kristján X. konungur Danmerkur og Íslands sem stofnsetti íslensku fálkaorðuna árið 1921. Í konungsbréfi sem varð grundvöllur orðunnar segir Kristján meðal annars: „Oss hefur þótt rétt, til þess að geta veitt þeim mönnum og konum, innlendum og útlendum, sem skarað hafa fram úr öðrum í því að efla heiður og hag fósturjarðarinnar að einhverju leyti, opinbera viðurkenningu, að stofna íslenska orðu, sem Vér viljum að sé nefnd „Íslenski fálkinn“.

Eigi víkja

Orðan var upphaflega teiknuð af Hans Christian Tegner, prófessor við Listaháskólann í Kaupmannahöfn í samstarfi við Jón Hjaltalín Sveinbjörnsson konungsritara og Poul Bredo Grandjean skjaldarmerkjafræðing.

Hefur orðan tekið nokkrum breytingum síðan, ekki síst eftir lýðveldisstofnun. Með forsetabréfi í ríkisráði sem haldið var á Þingvöllum 11. júlí 1944 var konungskórónan meðal annars numin brott sem og nafn konungs sem stofnanda hennar. Einkunnarorðum var breytt úr „Aldrei að víkja“ í „Eigi víkja“. Forseti Íslands hefur frá lýðveldisstofnun verið stórmeistari orðunnar.

Viðtalið við Katrínu má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka