Björguðu þremur erlendum karlmönnum

Frá björgunaraðgerðum í gær.
Frá björgunaraðgerðum í gær. Ljósmynd/Björgunarsveitin Þorbjörn

Göngumennirnir þrír sem björgunarsveitirnar Þorbjörn og Skyggnir komu til aðstoðar í gærkvöldi voru erlendir og á miðjum aldri. 

Otti Rafn Sigmarsson, björgunarsveitarmaður og einn þeirra sem kom mönnunum til aðstoðar, segir mennina hafa verið í gönguferð á leið að skoða gömlu gosstöðvarnar.

„Þetta var þeim ofviða. Veðrið versnaði bara eftir því sem á leið og var orðið snarvitlaust um seinnipartinn,“ segir Otti.

Hann segir mennina ekki hafa þurft á aðhlynningu að halda og að þeir hafi verið fljótir að ná sér eftir að hafa komist í hlýju og sest niður. Hann segir mennina hafa verið um sex tíma á göngu.

Otti Rafn Sigmarsson, var viðstaddur aðgerðirnar í gær.
Otti Rafn Sigmarsson, var viðstaddur aðgerðirnar í gær. Ljósmynd/Landsbjörg

Enginn að hnoðast upp frá

Að sögn Otta Rafns barst útkallið um klukkan 17:30 og fundu björgunarsveitarmenn ferðamennina um klukkan um 19. Mennirnir hafi verið komnir til byggða um kl. 20:30, en björgunarsveitarmenn voru búnir að ganga frá um 22.

Hann segir gönguleiðina að Litla-Hrúti vera vinsæla en að ekki sé mikið um aðgerðir í tengslum við ferðalanga á þeirri leið.

„Ég held að þetta sé kannski annað útkallið á árinu þangað, en ég held að göngumönnum skipti hundruðum á svæðinu.“

Þá kveðst hann ekki hafa orðið var við að fólk sé að gera sér leið að virku gosstöðvunum á Sundhnúkagígaröðinni.

„Það hefur ekki verið neitt, það er enginn að hnoðast þarna upp frá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert