Búin að skila mínu lífsverki

Iðunn Steinsdóttir unir hag sínum vel á sínum efri árum, …
Iðunn Steinsdóttir unir hag sínum vel á sínum efri árum, en eftir hana liggja fjölmargar bækur og dægurlög. mbl.is/Ásdís

Kennarinn og rithöfundurinn Iðunn Steinsdóttir hefur skilað sínu ævistarfi og nýtur þess nú að vera á eftirlaunum. Hún nýtir tímann í lestur, krossgátur og söng, en Iðunn á einmitt heiðurinn af fjölda vinsælla söngtexta. Barnabækur hennar margar hverjar lifa enn góðu lífi og eru á Storytel fyrir nýjar kynslóðir að njóta og bækurnar um Snuðru og Tuðru má finna í bókabúðum. Blaðamaður heimsótti Iðunni á Droplaugarstaði og átti við hana gott spjall um lífið og tilveruna.

Kommakrakki á Seyðisfirði

Létt er yfir Iðunni og segist hún ágæt til heilsunnar, en hún er komin yfir áttrætt.

„Mér finnst dásamlegt að fá að vera hér, ekki veikari en ég er,“ segir Iðunn og hlær dátt.

Starfsferill Iðunnar er langur og farsæll. Eftir nám í Menntaskólanum á Akureyri tók hún kennarapróf og kenndi lengst af í Laugarnesskóla. Fyrsta bók hennar, Knáir krakkar, kom út árið 1982 og stundaði Iðunn að mestu ritstörf frá 1987. Bækur hennar um Snuðru og Tuðru urðu sérstaklega vinsælar. Eftir að hafa skrifað fjöldan allan af barnabókum, skrifaði hún einnig bækur fyrir fullorðna, svo sem bók um langafa sinn Hrólf.

„Það var ágætt að alast upp á Seyðisfirði, en þar sem pabbi minn var sósíalisti vorum við kölluð kommakrakkarnir. Í litlum bæ er það ekki skemmtilegt, en á Akureyri vissi enginn að ég væri kommakrakki,“ segir hún og hlær.

Komst að því að ég gæti ort

Dægurlagasmíð segir Iðunn það skemmtilegasta sem hún vissi. Eftir hana liggja textar laga sem lifa með þjóðinni, eins og Átján rauðar rósir, Bíddu pabbi, Ég fer í fríið, Lífið er stutt og Myndin af þér sem Vilhjálmur Vilhjálmsson söng svo eftirminnilega.

„Mig minnir að það hafi verið Svavar Gests sem komst að því að ég gæti ort og bað mig um að semja texta við lög. Margt af því gat ég þýtt en svo samdi ég líka,“ segir hún.

„Ég hafði mjög gaman að þessu og var þetta eiginlega það sem mér fannst skemmtilegast,“ segir Iðunn, en henni þykir einnig gaman að syngja og segir töluvert sungið á Droplaugarstöðum. 

Hvíli mig með gleði

Í herbergi Iðunnar er bókahilla full af bókum eftir hana sjálfa. 

„Ég hef verið að lesa aftur bækurnar mínar. Þótt ég muni eftir þessum bókum, er dásamlega gaman að lesa þær aftur. Ég hefði aldrei trúað að ég gæti skemmt mér svona vel yfir þessu,“ segir Iðunn.

„Krakkarnir mínir í bekknum, samanber fjallakrílin mín, gáfu mér svo margar hugmyndir,“ segir Iðunn og segir að eitt sinn hafi nemandi beðið hana að skrifa bók um þau.

„Þau vissu þá ekki að ég var búin að semja tvær bækur um þau; Fúfú og fjallakrílin og Fjallakrílin: Óvænt heimsókn,“ segir hún og hlær.

„Svo hætti ég að kenna á endanum og fór að einbeita mér að skrifunum,“ segir Iðunn.

„Ég er hætt að skrifa; það er erfitt að fá hugmyndir þegar maður er orðinn áttatíu og fjögurra. Ég er búin að skila af mér mínu lífsverki og nú hvíli ég mig og geri það með gleði.“

Ítarlegt viðtal er við Iðunni í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert