Gæti verið byrjunin á margra ára ferli

Flogið yfir Bárðarbungu.
Flogið yfir Bárðarbungu. Ljósmynd/Þórður Arnar Þórðarson

Jarðskjálftinn upp á 5,4 stig sem varð í Bárðarbungu í morgun gæti verið upphafið að lengra tímabili þar sem eldstöðin er aðeins að taka við sér eftir eldsumbrotin í Holuhrauni á árunum 2014 til 2015.

Þetta segir Hildur María Friðriksdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, spurð nánar út í skjálftann, sem er sá stærsti í níu ár.

Auknar jarðskorpuhreyfingar

Hún segir Veðurstofuna hafa tekið eftir lítilsháttar aukningu á jarðskorpuhreyfingum á svæðinu síðan í byrjun síðasta árs en þær komu ekki fram í aukinni jarðskjálftavirkni fyrr en í febrúar á þessu ári.

„Þetta gæti verið byrjunin á einhverju margra ára ferli en það eru vísbendingar um að það sé þrýstingsaukning á svæðinu,” segir Hildur María, sem bætir við að starfsfólk Veðurstofunnar muni fylgjast náið með gangi mála. Engin ástæða sé þó til að auka viðbragðið í dag, enda ekki gert ráð fyrir að neitt sé að fara af stað núna.

Margir stórir í tengslum við Holuhraun

Spurð nánar út í jarðskjálftana í tengslum við eldgosið í Holuhrauni segir hún að virkilega margir stórir skjálftar hafi orðið á þeim tíma, en enginn einn sem hafi verið áberandi stærri en aðrir.

Eldgosið í Holuhrauni.
Eldgosið í Holuhrauni. mbl.is/RAX

Skjálftinn fannst á Dalvík

Hvað varðar skjálftann í morgun þá mældist eftirskjálfti 3 að stærð en áður hafði komið fram að hann hafi mælst 2,5. Síðan þá hefur verið mjög róleg í Bárðarbungu, að sögn Hildar Maríu.

Ein tilkynning barst Veðurstofunni frá Dalvík um að jarðskjálftinn hefði fundist þar. Skrölti þar eitthvað í leirtaui.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka